- Samál Samtök álframleiðenda
- Borgartúni 35
- IS-105 Reykjavík
- Iceland
- Framkvæmdastjóri, Guðríður Eldey Arnardóttir er með síma 8200766
- samal@samal.is
Rósa Guðbjartsdóttir, forseti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar, segist hafa þungar áhyggjur af fyrirhugaðri lokun álversins í Straumsvík. Hún segir hana koma til með að hafa áhrif á allt að eitt þúsund starfsmenn í bæjarfélaginu. Lesa má nánar um það í frétt Sunnu Karenar Sigþórsdóttur á vísi.is.
„Við vitum að þarna starfa um 400 manns og um er að ræða vel launuð störf, meðal annars í verkfræði- og tæknigeiranum. Þá er á annað hundrað fyrirtækja, bara hér í Hafnarfirði, sem eiga mest allt undir því að eiga í viðskiptum við álverið, þannig að það má áætla að það séu um störf allt að þúsund manna, fyrir utan afkomu þeirra fyrirtækja sem eru flest hérna í Hafnarfirði. Þannig að maður getur ímyndað sér hvað verður ef þetta er niðurstaðan, og það er eitthvað til að óttast," sagði Rósa í Bítinu á Bylgjunni, en í fréttinni á Vísi.is er vitnað til viðtalsins og jafnframt hægt að hlýða beint á viðtalið við Rósu.
Rósa sagðist hafa fundað með forsvarsmönnum álversins á dögunum, og að ljóst sé eftir þann fund að yfirgnæfandi líkur séu á að álverinu verði lokað.
„Ég vil hreinlega ekki hugsa þessa hugsun til enda ef af þessu verður. En þarna er um gríðarlega hagsmuni að ræða, milljarða hagsmuni fyrir hafnfirskt samfélag. Það er alveg ljóst," sagði Rósa. „Við þessi tíðindi og að þetta geti gerst er ljóst að þetta er grafalvarlegt mál sem ég hef verulegar áhyggjur af.“
Ekki sjálfgefið að álverið opni aftur
Samþykkt var í gær að stéttarfélög starfsmanna álversins í Straumsvík aðstoði Rio Tinto Alcan í tvær vikur við það að slökkva á álverinu, eftir að fyrirhugað verkfall hefst annan desember. Ólafur Teitur Guðnason, talsmaður Rio Tinto, segir ekki sjálfgefið að álverið opni aftur.
„Það er ljóst að álver er ekki eitthvað sem hægt er að leggja út í kant og setja síðan af stað aftur, eins og ekkert sé. Það er miklu nær að líkja því við skip sem sekkur og mikið mál að koma aftur upp og á flot," segir Ólafur í samtali við Vísi.
Hann segist þó binda vonir við að ekkert verði af verkfallinu.
„Maður verður að halda í vonina og vera bjartsýnn á að við náum einhverri lendingu því það eru miklir hagsmunir í húfi fyrir báða aðila. Okkar verkefni er að reyna að ná saman, en það verður að vera á nótum sem fyrirtækið getur lifað við og búið við."