- Samál Samtök álframleiðenda
- Borgartúni 35
- IS-105 Reykjavík
- Iceland
- Framkvæmdastjóri, Guðríður Eldey Arnardóttir er með síma 8200766
- samal@samal.is
Líklega vilja flestir ganga vel um umhverfið og skila jörðinni til afkomendanna í jafngóðu ástandi og hún var þegar núverandi kynslóð tók við henni. Hins vegar vefst fyrir mörgum að finna bestu leiðirnar til þess arna. Og í umhverfismálum er hið eina stóra rétta svar yfirleitt ekki til. Eða eins og einhver sagði: „Við sérhverri flókinni spurningu er til eitt einfalt svar, en það er örugglega vitlaust“. Það sem við þurfum að gera til að mjaka málum til betri vegar er sem sagt ekki eitthvað eitt og stórt, heldur liggur lausnin eða svarið í mörgu smáu.
Eftir þennan inngang er eðlilegt að spurt sé: Hvað á ég þá að gera til að bæta umhverfið og stuðla að því að afkomendurnir taki við góðu búi!? Og eins og vænta má er svarið ekki eitt, heldur mörg. Engin ein aðgerð dugar. Lausnin felst ekki í einu stóru verki. Hún felst í mörgum smáum verkum sem öll skipta máli. Næstu mínútur verða helgaðar nokkrum þessara verka, eða nokkrum dæmum af hlaðborði hinna mörgu smáu mikilvægu lausna.
Kaupum minna. Óþarfi er nefnilega engum til góðs til lengdar. Óþörf vara, hver sem hún er, skilur eftir sig fótspor. Hennar vegna hefur auðlindum verið sóað, dýrmæt orka notuð að óþörfu, stofnað til flutninga sem hefði mátt sleppa og stuðlað að myndun úrgangs sem aldrei hefði átt að verða til.
Notum minna af snyrtivörum. Snyrtivörur eru bara eitt dæmi um vörur sem mörg okkar nota í óhófi. Efni úr þessum vörum eiga greiða leið inn í líkama okkar og sum þessara efna eru ofnæmisvaldandi, hormónaraskandi og jafnvel krabbameinsvaldandi.
Notum Svansmerktar snyrtivörur. Þá getum við verið viss um að þau efni sem skaðlegust eru umhverfi og heilsu séu víðsfjarri.
Notum aldrei snyrtivörur með plastögnum, öðru nafni örplasti eða míkróplasti. Síðustu ár hafa margir framleiðendur bætt plastögnum í vörurnar sínar til að gefa þeim tiltekna eiginleika. Slíkar agnir er m.a. að finna í mörgum skrúbbkremum og í tannkremi sem á að gera tennurnar hvítari. Þessar agnir gera okkur sjálfsagt ekkert mein til skamms tíma litið, en úr niðurfallinu okkar fara þær í flestum tilvikum út í sjó þar sem þær eiga eftir að fljóta um aldir, draga til sín eiturefni af ýmsu tagi og lenda jafnvel inn í fæðukeðjunni og á diskinn okkar þegar fram líða stundir. Til er nóg af náttúrulegum efnum sem gera sama gagn, t.d. brot úr kókoshnetum og jafnvel kaffikorgur. Vörur sem innihalda plastagnir má þekkja á áletrunum á borð við „micro crystals“, „PET“ o.s.frv. Svansmerktar snyrtivörur innihalda engar slíkar agnir.
Borðum ekki kjöt á mánudögum. Reyndar er alveg sama hvaða vikudagur er valinn. Ein máltíð af kjöti er bara miklu frekari á auðlindir en ein máltíð af grænmetisfæði. Hugmyndin um kjötlausan mánudag er fengin að láni frá Noregi, en þar halda margir „kjøttfri mandag“ til að draga úr óþarfri vatnsnotkun, áburðarnotkun, olíunotkun, losun gróðurhúsalofttegunda og þar fram eftir götunum.
Hendum ekki mat. Nýtum afganga. Frystum afganga. Borðum fyrst það elsta úr ísskápnum. Tökum dagstimpla hæfilega hátíðlega. Um 800 milljón manns svelta eins og staðan er í heiminum í dag á sama tíma og um þriðjungi allra matvæla er hent. Þegar við hendum einu kílói af mat erum við líka að henda vatni, áburði og öðrum auðlindum sem voru notaðar við framleiðsluna á þessu kílói.
Komum lífrænum úrgangi í jarðgerð. Íslendingar urða tugi þúsunda tonna af lífrænum úrgangi á hverju ári á sama tíma og þjóðin glímir við eyðimerkurmyndun sem hægt væri að stemma stigu við ef lífrænn úrgangur væri nýttur til landgræðslu. Og svo flytjum við inn jarðveg og áburð sem jarðgerður lífrænn úrgangur gæti leyst af hólmi.
Spörum bílinn. Við þurfum ekki að fara akandi allra okkar ferða. Flest okkar geta auðveldlega labbað einn kílómetra á tíu mínútum og hjólað sömu vegalengd á mun styttri tíma. Slík ferðalög spara ekki bara auðlindir, heldur bæta þau heilsuna í leiðinni. Allir græða (nema kannski olíufélögin).
Flokkum úrgang og komum honum í endurvinnslu. Þetta gera sjálfsagt flestir, en færri hugsa samt út í mikilvægið. Með flokkun og endurvinnslu er ekki bara verið að draga úr urðun heldur er líka verið að koma í veg fyrir sóun auðlinda. Sem dæmi má nefna að til að endurvinna eitt tonn af áli þarf aðeins 5% af þeirri orku sem þarf til að frumvinna sama magn, auk þess sem miklu minni úrgangur fellur til.
Notum minna þvottaefni. Flest okkar nota meira af þvottaefni en þörf er á. Þarna eins og víðar er tækifæri til að spara peninga og draga úr álagi á umhverfið í leiðinni. Sama gildir um uppþvottavélar. Hálf tafla af uppþvottaefni getur t.d. dugað til að skila uppvaskinu álíka hreinu og heil tafla. Þarna liggur tækifæri til 50% sparnaðar.
Skrúfum fyrir vatnið á meðan við sápum okkur í sturtunni eða burstum tennurnar. Á Íslandi erum við víðast svo heppin að eiga nóg af vatni. En vatn sem rennur ónotað í niðurfallið gerir engum gagn. Úti í náttúrunni hefur vatnið alltaf eitthvert hlutverk ef það fær að seitla sína náttúrulegu leið, jafnvel þótt nóg sé af því. Það eitt að skrúfa fyrir krana er líka liður í að venja sig við ákveðinn lífsstíl, sem er vel að merkja skemmtilegur þegar á reynir.
Skilum öllum aflögðum fötum í gáma Rauða krossins. Jafnvel stakir sokkar og götóttar nærbuxur eru söluvara sem gefa Rauða krossinum nokkrar krónur í aðra hönd. Ef allir Íslendingar myndu hætta að setja textílefni í ruslið og setja þau í Rauðakrossgámana í staðinn myndu tekjur Rauða kross Íslands hækka um 100-200 milljónir árlega.
Kaupum lífræn matvæli. Þau hafa alla jafna haft minni áhrif á umhverfið en önnur matvæli.
Skilum öllum lyfjaafgöngum í apótek. Lyf eiga aldrei að fara í ruslið. Séu þau urðuð með öðrum úrgangi skila þau sér líklega út í umhverfið með tíð og tíma með ófyrirséðum afleiðingum.
Þetta voru bara 14 dæmi, valin af handahófi, um lítil, auðveld og einföld verk sem skipta máli. En dæmin eru miklu fleiri. Í þessu sambandi er vert að hafa í huga að „mörg lítil verk sem margt lítið fólk vinnur á mörgum litlum stöðum, geta breytt heiminum“.