- Samál Samtök álframleiðenda
- Borgartúni 35
- IS-105 Reykjavík
- Iceland
- Framkvæmdastjóri, Guðríður Eldey Arnardóttir er með síma 8200766
- samal@samal.is
Starfsmenn álvers Rio Tinto í Straumsvík fá 12,7% launahækkun og afturvirkar launahækkanir í formi 490 þúsund króna eingreiðslu. Þá munu laun hækka í samræmi við SALEK-samkomulagið til ársloka 2018 og síðan um tvö prósent í ársbyrjun 2019. Samningurinn gildir fram á vor 2019. Þetta segir Ólafur Teitur Guðnason, upplýsingafulltrúi Rio Tinto Alcan á Íslandi, í samtali við Mbl.is.
Miðlunartillaga ríkissáttasemjara vegna kjaradeilunnar í Straumsvík var samþykkt með 61,5% atkvæða. Kjaradeilan snérist m.a. að heimild Rio Tinto til verktöku. Miðlunartillagan felur í sér heimild til verktöku, en þó með þrengri skilyrðum en stjórnendur álversins hefðu kosið.
Frétt mbl.is: Samþykktu miðlunartillöguna
„Fyrirtækinu er heimilað að bjóða út tiltekna rekstrarþætti utan kjarnastarfseminnar og leita til verktaka við ákveðnar kringumstæður,“ segir Ólafur Teitur en það nær til rekstur mötuneytisins, hafnarstarfseminnar, öryggisvörslu og þvottahúss. Álverið fær þó ekki að ráða verktaka á markaðslaunum- eða verði, heldur þurfa greiðslur til verktaka að taka mið af launatöxtum ÍSAL.
Spurður hvort stjórnendur Rio Tinto séu sáttir við niðurstöðuna svarar Ólafur Teitur því til að eftir 40 árangurslausa fundi hjá ríkissáttasemjara hafi kannski verið kominn tími á að höggva hnútinn og þvinga samningsaðila til að komast að niðurstöðu. „Bæði starfsmenn og fyrirtækið telja þessa niðurstöðu ásættanlega,“ segir Ólafur Teitur.
Samningurinn nær til 330 starfsmanna álversins að sögn Ólafs Teits. Hann segir að það verði áfram mikið forgangsatriði hjá álverinu að auka samkeppnishæfni fyrirtækisins þannig að það geti staðið undir þessum miklu launahækkunum og launum sem fyrir séu há hjá fyrirtækinu.
„Það er ljóst að ÍSAL er í þröngri stöðu vegna þess hve álverð er lágt. Fyrirtækið ræður illa við að standa undir þessum miklu launahækkunum sem samið hefur verið um á Íslandi,“ segir Ólafur Teitur og bætir því við að fyrirtækið hafi ekki skilað „umtalsverðum hagnaði“ síðan 2011.