Það er varla til sú atvinnugrein þar sem ál leikur ekki stórt hlutverk, að sögn Justin Hughes hjá gr…
Það er varla til sú atvinnugrein þar sem ál leikur ekki stórt hlutverk, að sögn Justin Hughes hjá greiningarfyrirtækinu CRU.

Mikil eftirspurn í kortunum eftir áli

Verð á áli mun hækka nær stöðugt á næstu fimm árum með vaxandi eftirspurn á heimsvísu. Justin Hughes hjá greiningarfyrirtækinu CRU er í viðtali hjá Snorra Páli Gunnarssyni hjá Viðskiptablaðinu og segir íslenskan áliðnað vera í sterkri stöðu vegna eftirspurnar í Evrópu og lítillar kolefnisframleiðslu. 

Útlit er fyrir að heimsmarkaðsverð á áli fari hækkandi á næstu fimm árum vegna aukinnar eftirspurnar á heimsvísu, ekki síst í bílaiðnaði, byggingariðnaði og umbúðaframleiðslu. Það eru góðar fréttir fyrir Ísland, sem nýtur sérstöðu í áliðnaði vegna endurnýjanlegrar orku og nálægðar við Evrópumarkað.
„Það eru miklar breytingar í farvatninu á heimsmarkaði fyrir ál. Við sjáum fram á að aukin eftirspurn eftir áli muni ekki einskorðast við einstök heimssvæði eða atvinnugreinar, heldur muni hún koma úr öllum heimshlutum þvert á nær allar atvinnugreinar. Það er varla til sú atvinnugrein þar sem ál leikur ekki stórt hlutverk.“
Þetta segir Justin Hughes, aðalráðgjafi hjá breska greiningarfyrirtækinu CRU (Commodities Research Unit), í viðtali við Viðskiptablaðið. Hughes hélt erindi um horfurnar í áliðnaði á heimsvísu á ársfundi Samáls í gær.
CRU spáir því að skráð verð á áli í Málmkauphöll Lundúna verði í kringum 2.400 Bandaríkjadollarar á tonnið í ár, 2.325 dollarar á næsta ári og á bilinu 2.400 til 2.500 dollarar milli 2020 og 2022. Núverandi álverð er í kringum 2.300 dollarar á tonnið og hefur hækkað um tæplega 3% frá áramótum.
Jafnframt spáir CRU því að eftirspurn eftir frumframleiddu áli á heimsvísu verði tæplega 70 milljónir tonna í ár og að neyslan muni aukast um 5 milljónir tonna fram til ársins 2022. Áætlað er að uppsafnaður vöxtur í eftirspurn verði rúmlega 2% á ári í Evrópu og Norður-Ameríku, tæplega 4% í Mið-Austurlöndum og Kína, og 7% á Indlandi. CRU spáir að á heimsvísu muni eftirspurn eftir áli aukast um tæplega 4% á ári fram til 2022.

Bílaiðnaðurinn dregur vagninn
Ál er til margra hluta nytsamlegt og notagildi þess eykst stöðugt þar sem not eru fyrir léttleika, varanleika og styrk. Hughes segir þó að bílaiðnaðurinn muni leiða eftirspurnarvöxtinn á komandi árum.
„Mikil söluaukning hefur átt sér stað á tvinn- og rafbílum vestanhafs og stærstu bílaframleiðendur heims eru að snúa sér að framleiðslu slíkra bíla. Í dag eru þeir rúmlega 1% af allri bílasölu í heiminum í seldum einingum. En fyrir árið 2035 er því spáð að hlutfallið verði komið yfir 50%. Magn áls í slíkum bílum er mun meira en í bílum sem knúnir eru áfram af bensíni. Þar að auki þarf ökutækið að vera eins létt og mögulegt er til þess að raftæknin sé hagkvæm. Eðli málsins samkvæmt eykst eftirspurn eftir áli þegar rafbílavæðingin kemst á fullt skrið.“ Hughes bætir því við að framleiðendur hefðbundinna ökutækja noti í auknum mæli ál í stað stáls í bílgrindur
vegna þyngdarhagræðis.

Með auknum hagvexti á heimsvísu, vaxandi millistétt í þróunarríkjunum og fólksfjölgun spáir CRU jafnframt að neysla fari vaxandi á álpappír og vörum með álumbúðum, svo sem drykkjardósum, matarumbúðum og lyfjaumbúðum. Þá muni notkun áls í iðnaði aukast, meðal annars vegna aukinna framkvæmda á glermannvirkjum í vestrænum ríkjum, innviðaframkvæmda í þróunarríkjum og vaxandi notkunar áls í framleiðsluvélum, stillönsum og raflögnum.

Álið ekki eins og búfé
Hughes segir kosti áls umfram aðra málma ekki síst fólgið í endurvinnslu, en ál er meðal þeirra málma sem eru hvað mest endurunnir. Yfir 75% af öllu áli
sem framleitt hefur verið í heiminum er enn í notkun.
„Sé litið til orkuþarfar málmframleiðslu er hún hvergi meiri en í áliðnaði. Til að rafgreina eitt tonn af frumframleiddu áli þarf um 15 megavattstundir af orku. Til að bræða álleifar og framleiða hreina álhleifa þarf aðeins 5% af orkunni sem fór í að frumframleiða álið. Þetta er gríðarlegur orkusparnaður. Ál er þannig ekki eins og búfé; það verður áfram til og það er hægt að nota það aftur. Þar fyrir utan þarf ekki
að huga að ryðgun og endurmótun á áli líkt og með aðra málma. Fjárhagslegur og umhverfislegur hvati til endurvinnslu á áli er því mjög mikill,“ segir Hughes.
CRU áætlar að neysla á álleifum í ár verði um 26 milljónir tonna á heimsvísu og að eftirspurnin muni aukast um rúmlega 15% fram til 2022.

Ísland með kúnna við dyrnar
Íslenskur áliðnaður er ein af megingrunnstoðum í efnahagslífi Íslands. Spurður út í samkeppnisstöðu íslenskrar álframleiðslu á heimsmarkaði segir Hughes hana mjög sterka.
„Samkeppnisforskot Íslands felst í því að hér er gnótt endurnýjanlegra orkugjafa á borð við vatnsorku og jarðvarma. Í alþjóðlegum samanburði er kolefnisframleiðsla
áliðnaðarins á Íslandi mjög lág. Það er gott fyrir Ísland vegna þess að alþjóðleg
fyrirtæki eru tilbúin að greiða hærra verð fyrir „grænt“ ál til að minnka kolefnisfótsporið sitt og sýna viðskiptavinum og hluthöfum fram á samfélagslega ábyrgð. Vegna endurnýjanlegra orkugjafa er orkukostnaður áliðnaðarins hér á landi einnig lægri en víðast hvar annars staðar,“ segir Hughes.
Hann bætir því við að vægi áliðnaðar í íslensku hagkerfi tryggi að hann sé eins hagkvæmur og mögulegt er, en nýtingarhlutfall áliðnaðarins er nokkuð hátt. Þá sé staðsetning Íslands og nálægðin við Evrópu kostur. Nær allt ál sem framleitt er hér á landi fer á Evrópumarkað og nýtist meðal annars í bíla, felgur, álpappír, lyfjaumbúðir og húsaklæðningar.
„Ísland er með viðskiptavin við dyrnar sem vill fá meira ál. Það geta ekki verið annað en mjög góðar fréttir fyrir Ísland.“

Flökt í álverði til skamms tíma

Hughes segir að til skamms
tíma séu nokkrir áhættuþættir
til staðar hvað álverð varðar.
„Umframframleiðsla Kínverja
gæti haft áhrif en hún hefur
að mestu leyti verið leyst með
skerðingu á framleiðslugetu
og aukinni hagkvæmni í rekstri
ofna. Innflutningstollur Bandaríkjastjórnar
á ál, viðskiptaþvinganir
Bandaríkjanna gegn
rússneskum fyrirtækjum – einkum
móðurfélagi UC Rusal, næststærsta
álframleiðanda heims
– og hærra olíuverð vegna refsiaðgerða
Bandaríkjanna gegn
Íran gætu einnig raskað flæðinu
í alþjóðaviðskiptum til skamms
tíma. Flöktið á álverði mun halda
áfram næsta hálfa árið eða svo,
en síðan munu undirliggjandi
þættir í framboði og eftirspurn
ná yfirhöndinni.“ Áhættuþættir
til lengri tíma litið séu ólíklegt
afnám á útflutningsskatti Kínverja
á ál og frekari viðskiptaþvinganir
Bandaríkjastjórnar í
áliðnaðinum.

Sjá einnig