- Samál Samtök álframleiðenda
- Borgartúni 35
- IS-105 Reykjavík
- Iceland
- Framkvæmdastjóri, Guðríður Eldey Arnardóttir er með síma 8200766
- samal@samal.is
Umhverfismálum var gert hátt undir höfði á Iðnþinginu þar sem þau Ágúst Torfi Hauksson, framkvæmdastjóri Norðlenska, Magnús Þór Ásmundsson, forstjóri Alcoa Fjarðaáls, og Margrét Ormslev Ásgeirsdóttir, fjármálastjóri Carbon Recycling International, tóku til máls.
Í Morgunblaðinu var stiklað á því helsta sem þar kom fram:
Umhverfismálin hafa verið sívaxandi breyta í rekstri fyrirtækja og Parísarsáttmálinn sem undirritaður var á síðasta ári gerir miklar kröfur á öllum stigum samfélagsins. Margrét kallaði eftir skýrari mynd á það hvað væri ætlast til af atvinnulífinu í kjölfar samkomulagsins.
„Þar [í París] kom skýrt fram að fyrirtækin eru tilbúin að takast á við skuldbindingar þau eru tilbúin til að axla þann kostnað sem þarf. Hér á Íslandi birtist það m.a. í fyrirtækjum innan Festu sem tóku sig saman um markmið og Ísland hefur sett sér markmið í að fylgja Evrópu og leggja sitt af mörkum þar. En ekki hefur verið sagt hvernig. Fyrirtækin þurfa að vita hvað er framundan til að geta metið fjárfestingarkosti til að starfsumhverfi þeirra sé rétt þá viljum við vita hvað sé framundan með tilliti til skatta, koltvísýringsverðs og allskonar ívilnana. En það er hlutverk stjórnvalda að setja þetta skýrt fram svo að við vitum hvar við erum eftir eitt kjörtímabil eða tvö. Því að óvissan hamlar fjárfestingu.“
Nauðsynlegt er að skoða hlutverk álframleiðslu í hnattrænu samhengi að sögn Magnúsar. Það eigi til að gleymast í íslenskri umræðu.
„Það er verið að nota ál í farartæki eins og bíla og flugvélar, álið léttir farartækin og þar af leiðandi verður losun gróðurhúsaloftegunda frá þeim minni. Álumbúðir eru endurvinnanlegar og léttar. Ál í byggingum er létt byggingarefni, vel formanlegt og hagkvæmt. Veðurþolið o.s.frv. Þannig er notkun á áli að leggja til virði í umhverfismálum þar sem jákvæð áhrif notkumhverfismálum notkunar efnisins vega upp neikvæð umhverfisáhrif við framleiðsluna.
Álið hefur einstaka möguleika til endurvinnslu, það er auðendurvinnanlegt og það er ekki orkufrekt að endurvinna ál. Í dag er talið að 75% af því áli sem hefur verið framleitt í heiminum sé ennþá í notkun.“
Árið 2005 voru sett markmið innan fyrirtækisins sem náðu til ársins 2030 um að minnka losun Co2 um 35%. En Magnús segir að nú séu þau markmið að nást. „Verið er að taka til aðgerða í að minnka losun úrgangs, notkun á vatni og orku. Það gengur mjög vel í að vinna í öllum markmiðum og það eru aðgerðir á bak við hvert og eitt.“
Magnús tilkynnti að nú væri verið að ljúka fjárfestingarverkefni fyrir 600 milljónir króna til að bæta kerin. Stöðugleiki í rekstri aukist og losun yrði minni. Hann benti einnig á ýmislegt sem hefði áunnist í gegnum tíðina en frá árinu 1990 hefur áliðnaðurinn hér á landi minnkað losun gróðurhúsalofttegunda um 30-35% á hvert tonn sem framleitt er.
„Við þurfum að horfa á þessi mál í hnattrænu samhengi – loftslagsmál eru hnattræns eðlis. Í því samhengi ætti framleiðsla áls að vera eitt helsta baráttumál í umhverfisvernd hér á landi. Þar sem kolefnisfótspor áls sem er framleitt hér á landi er 10 sinnum minna en þess sem er framleitt með kolum.“
Carbon Recycling International hefur þróað tækni þar sem koltvísýringsútblástur er tekinn og honum breytt í verðmæti, fljótandi eldsneyti í formi vistvæns metanóls. Fyrirtækið þjónustar m.a. álverin sem eru skuldbundin til að minnka útblástur. Nú er verið að flytja tækniþekkinguna úr landi en verksmiðjan á Svartsengi bindur sex þúsund tonn af koldíoxíði á ári. Margrét benti á að það jafngildi því að innleiða 2000 rafbíla á ári.
Orkey á Akureyri, þar sem Ágúst er jafnframt stjórnarformaður, kaupir metanól af CRI og fitu af Norðlenska og býr til lífdísil. Úr verður dísilolía sem brennur í venjulegum vélum. Framleiðslan er nokkur hundruð tonn á ári og þótt það hafi tekið töluverðan tíma að ná rekstrinum réttum megin við núllið segist Ágúst sjá mikil tækifæri þar. Hann bendir einnig á metangas í þessu samhengi sem sé unnið í talsverðu magni hér á landi bæði í Álfsnesi og í Glerárhaug sem sé svo notað á samgöngutæki. Nú sé verið að gera þetta við frekar frumstæðar aðstæður í landfyllingarhaugum hér á landi en framtíðin sé á alla vafa sú að þróa framleiðsluna frekar.
Metangas er afar skaðlegt umhverfinu en með því að brenna það minnka skaðlegu áhrifin gríðarlega. „Þannig að tilfinningin er töfrum gædd þegar maður kveikir á metaninu á bílnum. Þá er maður farinn að menga negatíft,“ segir Ágúst.
Það sem skipti máli sé að fyrirtæki séu með opinn huga gagnvart því að það sem sé úrgangur hjá einu fyrirtæki sé hráefni hjá öðru. Þetta tók Margrét undir og benti á auðlindagarðinn í Svartsengi þar sem fjölmörg fyrirtæki störfuðu saman í að nýta það sem gengi af í rekstri hvert annars. Þetta væri vel þekkt erlendis.
hallurmar@mbl.is
Ljósmynd/Haraldur Guðjónsson