- Samál Samtök álframleiðenda
- Borgartúni 35
- IS-105 Reykjavík
- Iceland
- Framkvæmdastjóri, Guðríður Eldey Arnardóttir er með síma 8200766
- samal@samal.is
Ágústa Ólafsdóttir verkefnastjóri eldsneytis og vistvænnar orku hjá Orkustofnun skýrði muninn á mengun og losun Í bítinu á Bylgjunni. Þá ræddi hún m.a. um mismunandi notkun kola, þ.e. orkunotkun og notkun í efnafræðilegu ferli í framleiðslu.
– Eldsneytisspáin fyrir árið 2016-2050. Þar kemur ýmislegt í ljós.
„Já, við spáum fyrir um eldsneytisnotkun, hvort sem það er kol eða gas eða olía eða annað eldsneyti,“ segir Ágústa Ólafsdóttir, sérfræðingur hjá Orkustofnun.
– Og hvað erum við að tala um? Erum við að tala um kol sem stóriðjan brennir eða einhverjar verksmiðjur – á þetta eftir að aukast á næstu árum?
„Já, spáin gerir allavega ráð fyrir því að við séum að fara að auka kolanotkunina enda eru nýjar verksmiðjur að koma hingað,“ segir Ágústa.
„Reyndar þarf ég aðeins að útskýra að í orkuspánni erum við að skoða það sem telst orkunotkun kola og það er ekki sama hvernig kol eru notuð. Það er mismunandi. Við notum töluvert meira en kemur fram í orkuspánni af kolum vegna þess að kolanotkun getur verið bæði orkunotkun eins og við þekkjum, til dæmis af kolagrillunum, og síðan í efnafræðilegum tilgangi.
Þannig að í sumum verksmiðjum, eins og t.d. álverunum, þar eru kolaskaut. Og það telst ekki orkunotkun á kolum. Af því að hugmyndin þar, og reyndar í flestum verksmiðjum sem nota kol, er að nota kolefnið í kolunum. Þá ertu sem sagt með einhvern málm, ál eða járngrýti eða kísil sem er með súrefni, það getur verið súrál svokallað eða eitthvað þvíumlíkt, og þú vilt hreinsa súrefnið úr málminum. Og til þess að gera það er einfaldast að nota kolefni til þess að ganga í efnasamband við súrefnið. Þá verður til koldíoxíð sem við þekkjum. Þannig að það er ekki endilega bruni sem er notaður. Það er því íslenska orkan, hreina orkan okkar, vatnsaflið og jarðvarminn sem fer í það að keyra efnahvarfið áfram.“
– Þannig að innflutningur á kolum, til dæmis í álverin, er ekki eins umhverfisslæmur, ef ég gæti orðað það þannig, eins og maður skyldi ætla í fyrstu. Eða hvað? Er ég að skilja þig rétt?
„Í rauninni var ég að gera þarna greinarmun,“ segir Ágústa. „Og þetta er svolítið skilgreiningaratriði, sem virkar kjánalegt þegar við erum bara að hugsa um: Erum við að nota kol eða ekki? En þetta skiptir máli upp á þessar tölur sem við erum að birta. Það er að segja kol sem eru notuð sem orkugjafi og þá kannski í kolaofnum þar sem þau eru brennd. Jafnvel þar eru þau líka notuð sem kolefnisgjafar í efnahvörfum. Þar er kveikt í þeim, þau eru brennd og þau mynda orku. En svo annars staðar kemur orkan frá rafmagninu, kolin eru í skautunum og eru bara kolefnisgjafar. Þannig að þessar tölur sem við gefum út t.d. í eldsneytisspánni eru lægri en heildarnotkunartölur þegar tökum bæði kol og kolaskaut.
Og ég, af því að ég vinn í orkugeiranum, þá veit ég nákvæmlega hvað við notum mikið af kolum sem við brennum, en ég er ekki með nákvæmar tölur yfir hvað fer mikið í kolaskautin. En þetta er samtals einhvers staðar um 500 þúsund tonn á ári.“
– Er það mikið?
„Það er slatti. Við vitum það, að við erum með töluvert mikið af stóriðju hér, þannig að við notum töluvert mikið af kolum. Við erum samt ekki á pari við þau lönd sem nota hvað mest og nota til dæmis kol til að framleiða raforku. Í tilfellum þar sem raforkan er notuð til þess að keyra efnahvörfin, þar getum við séð strax í hendi okkar að það er mjög líklegt að þær verksmiðjur sem eru hér og nota kol í efnaferlunum séu umhverfisvænni heldur en samskonar verksmiðjur í landi þar sem raforka er framleidd með kolum.“
– Og það er ekkert annað sem kemur til greina en kol – það er ekki hægt að nota neitt annað – þú verður að hafa þennan bruna?
„Þú verður að hafa kolefnisgjafa, já. Langbesti kolefnisgjafinn er náttúrlega kol, þau eru nokkurn veginn kolefni, en það er hægt að nota timburkurl og lífræn efni líka, þau eru ekki alveg eins góðir kolefnisgjafar, þannig að án þess ég sé kannski sérfærðingur í þessu, þá grunar mig að það sé erfitt að nota það eingöngu.“
...
– Þá veltir maður fyrir sér útblæstrinum frá þessum kolum. Það eru nú einhverjar síur sem þessi fyrirætki eru skyldug til þess að vera með?
„Við ruglum oft saman mengun og losun,“ svarar Ágústa. „Þannig að ef við bara aftengjum þetta tvennt, þá er mengun er eitthvað sem er staðbundið og eitthvað sem fer í lungun á okkur, sót, brennisteinn, NOx og þess háttar. Við erum með síur fyrir sótið og þess háttar. Það er eitthvað sem verksmiðjur verða að hafa til þess að fá starfsleyfi. Ef það er ekki rétt, þá verður einhver frá Umhverfisstofnun að koma og leiðrétta mig. Og þetta er eitthvað sem er tiltölulega auðvelt að eiga við – þannig.
Svo kemur að koldíoxíðinu og það er ekki eitrað, þú getur andað því að þér, og það eru engin áhrif af því. Vandamálið við koldíóxíð er að það er gróðurhúsalofttegund og það eykur hitann á jörðinni. Það eru hnattræn áhrif af koldíoxíðinu. Þannig að staðsetning verksmiðju með tilliti til þess hvað hún losar mikið skiptir engu máli. Á meðan staðsetningin skiptir máli varaðandi staðbundna mengun. Við viljum kannski ekki hafa mjög mikið af staðbundinni mengun hjá okkur.
Þannig að losunin, koldíoxíðlosunin, frá öllum verksmiðjum sem nota kol, sérstaklega þar sem tilgangurinn er beinlínis að búa til koldíoxíð til að losna við súrefni, þá hlýtur auðvitað að vera töluvert mikil losun, en sú losun myndi eiga sér stað hvort eð er, alveg sama hvar þú værir með verksmiðjuna og áhrifin væru alveg jafnmikil allstaðar í heiminum. Þess vegna hefur Evrópusambandið sett upp kerfi sem kallast ETS og það nær yfir allar staðbundnar verksmiðjur og orkuframleiðslu í Evrópu eða á Evrópska efnahagssvæðinu. Þannig að við erum aðilar að því líka.
Það þýðir að allar þessar verskmiðjur þurfa að kaupa losunarheimildir eða minnka losunina núna á næstu árum. Og kvótinn sem þær hafa til að losa minnkar alltaf. Hann er nokkurn veginn sá sami sama hvar þær eru staðsettar. Þannig að allar verksmiðjur í Evrópu eru kreistar jafnmikið. Og þetta er fyrir utan þær skuldbindingar sem við sem þjóð setjum á okkur – að við ætlum að draga úr losun um 40% árið 2030 miðað við 1990. Það er fyrir utan þetta ETS kerfi. Það er alveg sér.“
– Áhugavert. Takk fyrir þetta Ágústa Ólafsdóttir. Nú vitum við meira um kolin og Ísland...