Norðurál óskar íhlutunar Samkeppniseftirlitsins vegna verðlagningar Landsvirkjunar á skammtímamarkaði

Norðurál hefur sent erindi til Samkeppniseftirlitsins, þar sem óskað er íhlutunar vegna þess sem Norðurál telur vera misnotkun Landsvirkjunar á markaðsráðandi stöðu á skammtímamarkaði með raforku, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu. Þar segir enn fremur:

Norðurál hefur í allnokkur ár ekki haft nægjanlega orku í gegnum langtímasamninga til að halda uppi fullri framleiðslu í álverinu. Auk þess hefur Norðurál tímabundið þurft að kaupa raforku á skammtímamarkaði til að fylla upp í skerðingar vegna viðhalds hjá öðrum orkuframleiðendum sem Norðurál kaupir orku af.

Í sumarbyrjun kom þessi staða upp, þ.e. að Norðurál þurfti að kaupa raforku á skammtímamarkaði til að forðast tjón í kerskála vegna skerðinga og til að geta haldið uppi fullri framleiðslu. Nær öll raforka á íslenska skammtímamarkaðnum er framleidd af Landsvirkjun.

Eftirspurn eftir raforku hafði dregist saman á Íslandi og staða í lónum Landsvirkjunar var yfir meðallagi. Við slíkar aðstæður ætti verð að vera lægra en ella. Það verð sem Landsvirkjun vildi fá var hins vegar yfir því verði sem Norðurál keypti frá minni orkuframleiðanda, að því marki sem sá hafði slíka orku til reiðu, var yfir meðalverði Landsvirkjunar árin á undan og yfir verði á Norræna skammtímamarkaðnum, Nord Pool.  

Norðurál telur að Landsvirkjun hafi sem markaðsráðandi aðili á markaði með skammtímaorku misnotað stöðu sína gagnvart Norðuráli með því að krefjast ósanngjarns og óhóflegs endurgjalds fyrir umframorku.

 

Gunnar Guðlaugsson, forstjóri Norðuráls:

„Það er eðlilegur hluti af viðskiptum fyrirtækja á Íslandi að þurfa öðru hverju að leita til opinberra aðila eins og Samkeppniseftirlitsins til að greiða úr deilumálum og fá sinn hlut réttan. Ég legg hins vegar áherslu á að samstarfið við Landsvirkjun hefur almennt verið mjög gott hingað til og ég vænti þess að svo verði áfram. “

 

Nánari upplýsingar veitir Sólveig Bergmann, yfirmaður samskipta hjá Norðuráli, í síma 820 4004 eða í tölvupósti: solveig@nordural.is.

Sjá einnig