Rio Tinto Alcan tilnefnt til menntaverðlauna

Menntaverðlaun atvinnulífsins verða veitt í fyrsta sinn mánudaginn 3. mars á Hilton Reykjavík Nordica til fyrirtækja sem hafa staðið sig vel á sviði fræðslu- og menntamála.  

Fjögur fyrirtæki eru tilnefnd sem menntafyrirtæki ársins, en það eru Isavia, Landsbankinn, Rio Tinto Alcan á Íslandi og Samskip. Tilnefnd fyrirtæki leggja öll áherslu á mikilvægi menntunar og hafa skýra mennta-og fræðslustefnu sem er fylgt eftir. Við mat á tilnefningum voru gæði fræðslunnar metin og kannað hvort mennta- og fræðslustefnan hafi eflt menntun innan fyrirtækjanna og aukið samkeppnishæfni þeirra. 

Þá eru fjögur fyrirtæki tilnefnd sem menntasproti árins eða Codland, Landsnet, Leikskólinn Sjáland og Nordic Visitor. Tilnefnd fyrirtæki hafa öll í rekstri sínum lagt aukna áherslu á fræðslu- og menntamál. Við mat á tilnefningum var skoðað hvort farnar hafi verið nýjar leiðir við eflingu menntunar innan fyrirtækjanna og þátttöku starfsmanna í fræðslustarfinu.

Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, mun tilkynna um hverjir hljóta verðlaunin á Menntadegi atvinnulífsins en SA, LÍÚ, SVÞ, SF, SFF, SI, Samorka og SAF efna til menntadagsins sem stendur frá kl. 13-16.30 á Nordica. Menntun og fræðsla sem nýtist öllu atvinnulífinu verður þar í kastljósinu en þetta er í fyrsta sinn sem fulltrúar ólíkra atvinnugreina halda sameiginlegan menntadag.

Á heimasíðu Rio Tinto Alcan er fræðslustefnu fyrirtækisins svo lýst:

    • Metnaðarfullt fræðslustarf er lykilþáttur í starfsemi Rio Tinto Alcan. Fræðslan skilar sér í hærra menntunarstigi starfsfólksins og eflir fyrirtækið á allan hátt. Fræðslustundir starfsmanna skipta tugum þúsunda á hverju ári og ávinningurinn er sameiginleg eign starfsmannsins og fyrirtækisins og skapar verðmæti fyrir báða aðila.
    • Í fræðslustarfinu ber Stóriðjuskólann hæst. Í honum er boðið upp á sérhæft tækninám í áliðnaði á tveimur stigum, grunnnám og framhaldsnám. Markmiðið er að efla fagþekkingu og öryggi starfsfólks, auka möguleika þess á að vinna sig upp innan fyrirtækisins og efla samkeppnishæfni fyrirtækisins.
    • Að auki er boðið upp á margs konar fræðslu, t.d. þjálfun í tæknilegri færni starfsmanna á ýmsum sviðum, leiðtogaþjálfun, nýliðafræðslu, fræðslu um öryggis-, heilsu- og umhverfismál, mannleg samskipti og hópastarf. Hjá fyrirtækinu er til staðar fóstrakerfi sem auðveldar nýliðanum að kynnast vinnustaðnum og þeim fjölmörgu og flóknu verkum sem þarf að vinna.
    • Stjórnendum og framtíðarleiðtogum er einnig boðið upp á markvissa símenntun og það nýjasta er svokölluð Black Belt og Green Belt þjálfun, sem byggir á aðferðafræðinni Lean Six Sigma.  Á þessu sviði er álverið í Straumsvík frumkvöðull á Íslandi en aðferðafræðin hefur notið vaxandi vinsælda erlendis upp á síðkastið.  

 

Öll álfyrirtækin á íslandi standa fyrir viðamiklu námi í stóriðjuskóla, auk þess sem fræðslan er víðfeðm á ýmsum sviðum, þar með talið í stjórnun, öryggis- og umhverfismálum. 

Sjá einnig