- Samál Samtök álframleiðenda
- Borgartúni 35
- IS-105 Reykjavík
- Iceland
- Framkvæmdastjóri, Guðríður Eldey Arnardóttir er með síma 8200766
- samal@samal.is
Samtök álframleiðenda á Íslandi hafa mótmælt harðlega áformum ríkisstjórnarinnar um álagningu kolefnisgjalds sem fram koma í frumvarpi til fjárlaga. Samtökin hafa bent á að hvergi annars staðar tíðkast slík álagning í áliðnaði og áform stjórnvalda gangi þvert á markmið viðskiptakerfis Evrópusambandsins með losunarheimildir, ETS, sem Ísland er aðili að. Hafa samtökin sent Efnahags- og viðskiptanefnd umsögn vegna þessa þar sem stjórnvöld eru hvött til að standa við gerða samninga og hverfa frá þessum áformum. Umsögnin er svohljóðandi:
"Í frumvarpi ríkisstjórnarinnar til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum vegna ársins 2012 er að finna tillögu að breytingum á lögum nr. 129/2009, um umhverfis- og auðlindaskatta. Með lögum þessum var á sínum tíma innleidd tímabundin skattlagning á raforku auk skattlagningar á eldsneyti í fljótandi formi en lögin áttu að falla úr gildi í árslok 2012.
Samkvæmt frumvarpinu er nú gert ráð fyrir að lögin haldi gildi sínu áfram auk þess sem tekið verði upp kolefnisgjald á eldsneyti í föstu formi, þ.m.t. kol og rafskaut, frá og með 1. janúar 2013.
Vegna þessara áforma vísa Samtök álframleiðenda á Íslandi til samkomulags fjármálaráðuneytisins og iðnaðarráðuneytisins annars vegar, og Norðuráls, RioTinto Alcan, Alcoa á Íslandi og Elkem á Íslandi hins vegar varðandi raforkuskatt og fyrirframgreiðslu tekjuskatts og annarra opinberra gjalda þann 7. desember 2009. Þar kemur skýrt fram að fyrirframgreiðsla fyrirtækjanna á tekjuskatti, „ásamt sköttum á raforku og kolefnislosun vegna fljótandi eldsneytis, sem lagðir verða á með sérstökum lögum, mun standa í 3 ár frá árinu 2010 að telja. Skattarnir eru tímabundnir og falla niður í lok árs 2012. Þess er að vænta að Ísland verði aðili að alþjóðlegu viðskiptakerfi með losun gróðurhúsalofttegunda er geti tekið gildi árið 2013 en ekki liggur fyrir hvernig það viðskiptakerfi verður útfært. Markmiðið er að slík skattheimta feli almennt ekki í sér lakari starfsskilyrði fyrir fyrirtæki sem reka starfsemi sína hér á landi samanborið við önnur Evrópuríki og erlenda samkeppnisaðila á sama markaði.“ (2. málsgrein fyrrnefnds samkomulags).
Fyrrgreind áform ríkisstjórnarinnar sem fram koma í frumvarpinu eru því skýrt brot á ofangreindu samkomulagi. Má þar einkum nefna þrennt til.
Í fyrsta lagi er ekki staðið við það ákvæði samkomulagsins að um tímabundna ráðstöfun sé að ræða sem falli úr gildi í árslok 2012. Raforkuskatturinn sem þar er á um kveðið er því varanlegur en ekki tímabundinn.
Í öðru lagi er nú áformað að taka upp kolefnisgjald á rafskaut. Slíkt gjald er hvergi innheimt annars staðar innan ríkja Evrópusambandsins og er hér því um mismunun að ræða sem skapar áliðnaði lakari starfsskilyrði hér á landi í samanburði við önnur Evrópuríki og erlenda samkeppnisaðila á sama markaði.
Í þriðja lagi stendur nú yfir endurskoðun á reglum Evrópusambandsins hvað varðar samræmda skattlagningu á orkugjafa (2003/96/EC). Þar kemur skýrt fram sú meginregla að fyrirtæki í iðngreinum sem hætt er við kolefnisleka séu undanþegin viðbótar skattlagningu á losun, þ.m.t. beinni skattlagningu á orkugjafa sem leiða til losunar gróðurhúsalofttegunda. Slík tvöföld skattheimta sé ekki til þess fallin að ná fram viðbótar samdrætti í losun heldur myndi aðeins verða til að auka kostnað fyrirtækjanna (7 mgr. formála reglugerðardraganna). Í skýringum með reglugerðardrögunum kemur jafnframt fram að það sé einn megintilgangur breytingar á reglugerðinni að koma í veg fyrir tvöfalda skattlagningu af þessu tagi.
Þessu til viðbótar er rétt að halda því til haga að ofangreind lagabreyting mun einnig brjóta gegn gildandi fjárfestingarsamningum í orkufrekum iðnaði.
Í skýringum með fyrirhugaðri lagabreytingu segir: „Ljóst er að taka þarf álagningu kolefnisgjalds til frekari skoðunar á næsta ári með hliðsjón af þeim breytingum sem framundan eru á viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda, en þær eru meðal annars fólgnar í því að losun frá álverum og járnblendi mun að öllum líkindum verða háð losunarheimildum frá og með 1. janúar 2013. Óljóst er hvað muni taka við þegar fyrsta tímabili Kyoto-bókunarinnar lýkur. Það er meðal annars ástæða þess að breikkun gjaldstofnsins tekur einungis til eins árs í þessu frumvarpi, en hugmyndin er sú að skoða málið heildstætt á árinu 2012.“
Hér er vísað til ákvæða samkomulagsins frá 2009 sem snéru að óvissu um hvernig endanleg útfærsla á viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir, ETS, myndi þróast í þriðja fasa þess kerfis sem hefst 1. janúar 2013. Í þessu samhengi er rétt að benda á að lagarrammi ETS hefur nú tekið á sig skýra mynd og vinna íslensk fyrirtæki sem falla munu undir ETS frá 1. jan 2013 nú að innleiðingu þeirra reglna í starfsemi sinni. Allri óvissu sem vísað var til í samkomulaginu frá 2009 hefur því verið eytt. Íslenskur áliðnaður mun falla undir gildissvið ETS og fá úthlutað losunarheimildum í takt við viðmið kerfisins. Því er engin ástæða til að grípa til tímabundinna ráðstafanna líkt og vísað er til í greinargerðinni.
Í ljósi ofangreindra athugasemda leggja samtökin til að staðið verði við fyrirheit stjórnvalda sem fram komu í samkomulaginu frá 2009 og horfið frá þeim breytingum sem boðaðar eru á lögum nr. 129/2009 í frumvarpinu."