- Samál Samtök álframleiðenda
- Borgartúni 35
- IS-105 Reykjavík
- Iceland
- Framkvæmdastjóri, Guðríður Eldey Arnardóttir er með síma 8200766
- samal@samal.is
Það er þjóðþrifamál að kafa ofan í svokallaða gullhúðun í regluverki EES eins og utanríkisráðherra hefur boðað.
Eins og flestir vita, á gullhúðun við um þann gjörning stjórnvalda, að herða á reglum EES-gerða eða bæta við heimasmíðuðum ákvæðum í innleiðingarfrumvörp sem ekki leiða af skuldbindingum samkvæmt EES-samningnum. Í raun er þetta séríslensk hugvitssemi stjórnvalda um hvernig leggja megi meiri byrðar á atvinnulífið.
Fátt er meira lýsandi um aðstöðumuninn milli þeirra sem leggja álögur á aðra og hinna sem þurfa að standa undir álögunum.
Hvers vegna skyldi nokkuð vera athugavert við það, að íslensk stjórnvöld hafi sína hentisemi, þegar þau innleiða regluverk ESB?
Jú, einsleitni er eitt af meginmarkmiðunum með samstarfi ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu. Forsenda þess að ríki opni landamærin með þessum hætti og stofni til sameiginlegs markaðar með vörur og þjónustu, er vissan um að fyrirtækin búi við svipuð rekstrarskilyrði, sama hvar þau rækja starfsemi sína. Hugmyndin er að sameiginlega regluverkið ýti hindrunum úr vegi og greiði götu fyrirtækja – eða íþyngi að minnsta kosti ekki einstökum ríkjum umfram önnur. Það skýtur því skökku við ef ríkin sjálf taka upp á því, að leggja stein í götu atvinnulífsins heima fyrir og skerða samkeppnisstöðu þess.
Vert er að benda á, að þegar ESB mótar sitt regluverk, sem síðar er tekið inn í EES-samninginn, þá er það rýnt af sérfræðingum, mótað af framkvæmdastjórn og skeggrætt á Evrópuþinginu. Eins og gefur að skilja eru gerðar ótal lagfæringar, betrumbætur og málamiðlanir á þeirri vegferð. Orðalagið í regluverkinu er því engin tilviljun heldur vandlega ígrunduð niðurstaða sem fæst úr samræmingarferli sem allar 27 þjóðir ESB koma að, auk þess sem EES-ríkin geta komið sínum sjónarmiðum að. Allt þetta samráð þýðir ekki að niðurstaðan sé yfir gagnrýni hafin, en hún er að minnsta kosti sameiginleg.
Með því að hlaða séríslensku grjóti ofan á þær byrðar sem ESB hefur lagt á evrópska atvinnuvegi, þá er dregið úr samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs og þar með svigrúmi fyrirtækja hér á landi til að komast af – og það dregur sömuleiðis úr tækifærum þeirra til að skila ábata í rekstri, sem við treystum þó á að standi undir velferðarkerfinu hér á landi.
Þess vegna var sláandi þegar fram kom í skýrslu sem umhverfis-, auðlinda- og orkumálaráðherra skilaði í liðinni viku, að regluverk sem innleitt var af því ráðuneyti á árunum 2010 til 2022 sætti gullhúðun í 41% tilvika. Í einhverjum tilvikum má eflaust réttlæta að regluverkið sé lagað að íslenskum aðstæðum, en þegar 40 kílómetrar verða að einum í kröfunni um umhverfismat, er það þá ekki fullmikil skammsýni?
Ekki bætti úr skák, að í sumum tilvikum var misbrestur á því að Alþingi væri upplýst um hvað væri hluti af innleiðingu EES-gerða og hvað ekki. Slík vinnubrögð brjóta gegn reglum um þinglega meðferð EES-mála, lögum um þingsköp Alþingis og samþykkt ríkisstjórnarinnar um undirbúning og frágang stjórnarfrumvarpa. Enda er „meginstefnan“ sú að innleiðingin endurspegli EES-skuldbindinguna, sé vikið frá því þurfi að tilgreina það sérstaklega og „rökstuðningur fylgja slíkri ákvörðun“.
Það er því afar jákvætt, að utanríkisráðherra hafi skipað starfshóp um aðgerðir gegn gullhúðun ESB-reglna og er orðið „afhúðun“ ágætt um það verkefni – en það er líka bara hægt að tala um að létta af atvinnulífinu óþarflega íþyngjandi álögum og styrkja samkeppnisstöðu þeirra – til hagsbóta fyrir alla.
Pétur Blöndal
framkvæmdastjóri Samáls
(Grein sem birtist í Morgunblaðinu 31. janúar 2024.)