Siðareglur

Siðareglum þessum er ætlað að standa vörð um orðspor og trúverðugleika Samáls  og aðildarfélaga. Siðareglurnar gilda um alla starfsmenn félagsins.  Auk þessara siðareglna skulu framkvæmdastjóri og annað starfsfólk Samáls  hafa siðareglur aðildarfélaga að leiðarljósi öllum stundum.

1.       Mannréttindi og almenn siðferðismál:

a.       Starfsfólk Samáls hefur almenn mannréttindi að leiðarljósi í störfum sínum.

b.      Við gætum jafnréttis á grundvelli kynþáttar, kyns, þjóðernis, trúar, aldurs, kynhneigðar og stjórnmálaskoðana.

c.       Einelti er ekki liðið.

d.      Kynferðisleg áreitni er ekki liðin.

e.      Þvinganir eða ógnanir eru ekki liðnar innan vinnustaðarins.

2.       Heilbrigðis-, öryggis- og umhverfismál:

a.       Starfsfólk Samáls skal í hvívetna hlíta heilbrigðis-, öryggis- og umhverfisreglum aðildarfélaga sinna á vinnusvæðum þeirra og tileinka sér þær í starfi sínu.

b.      Samál leggur áherslu á að forðast slys á vinnustaðnum.

c.      Samál leitast við að vernda heilsu og heilbrigði starfsfólks síns.

d.      Notkun áfengis eða ólöglegra vímuefna  er óheimil á vinnustað sem og við önnur störf.

3.       Viðskiptasiðferði:

a.      Samál hefur sjálfbærni og  samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi í störfum sínum.

b.      Samál leggur áherslu á heiðarleika í allri starfsemi sinni. Starfsfólk skal gæta þess í hvívetna að hátta störfum sínum í samræmi við gildandi lög og gott siðferði.

c.       Samál eru hagsmunasamtök fyrirtækja sem eiga í innbyrðis samkeppni. Samál gætir þess að starfsemi þess brjóti aldrei í bága við samkeppnislög á hverjum tíma.

d.      Samál kemur ekki að málum sem varða innkaup aðildarfélaga sinna.

e.      Í gagnaöflun sinni um áliðnað gætir Samál þeirrar meginreglu að aðeins séu birtar upplýsingar um greinina í heild, nema til komi samþykki aðildarfyrirtækja um annað. Starfsfólki Samáls ber að gæta þess að dreifa ekki sundurliðuðum upplýsingum til aðildarfélaga sinna.

f.       Starfsfólki Samáls er óheimilt að þiggja gjafir umfram smágjafir eða hóflega gestrisni af aðildafélögum eða öðrum samskiptaaðilum félagsins.

g.      Starfsfólki Samáls er almennt óheimilt að taka að sér önnur launuð störf nema að fengnu samþykki stjórnar.

h.      Framkvæmdastjóra Samáls er óheimilt að sitja í stjórn eða stjórnum fyrirtækja og félagasamtaka nema að fengnu samþykki stjórnarformanns.

i.        Framkvæmdastjóra Samáls er óheimilt að eiga hlut í fyrirtækjum nema að fengnu samþykki stjórnarformanns. Undanskildir eru þó minniháttar hlutir í skráðum fyrirtækjum.

j.        Greiðslur fyrir störf framkvæmdastjóra sem unnin eru í nafni Samáls fyrir þriðja aðila, eru eign Samáls.

4.      Samskipti við stjórnvöld:

a.      Samál sinnir öllum lögmætum beiðnum um upplýsingagjöf til stjórnvalda.

b.      Allar upplýsingar sem gefnar eru skulu veittar tímanlega og eftir bestu vitund.

c.      Samál veitir stjórnvöldum aldrei stefnumarkandi yfirlýsingar án samþykkis aðildarfélaga þess.

d.      Samál veitir enga styrki til stjórnmálaflokka eða pólitískra samtaka af neinu tagi.

e.      Beinar greiðslur til stjórnmálamanna eða opinberra starfsmanna eru óheimilar.

f.       Samál tekur ekki þátt í flokkspólitísku starfi af neinu tagi né ljáir slíku starfi nafn sitt undir nokkrum kringumstæðum.

         Starfsfólki Samáls er þó heimilt að halda erindi á flokkspólitískum fundum, enda sé það gert til að veita umbeðnar upplýsingar um áliðnaðinn.

g.      Samál gefur ekki né má starfsfólk þess þiggja gjafir frá opinberum aðilum.

h.      Starfsfólki Samáls eru þó ekki settar skorður í pólitísku starfi í eigin nafni og utan vinnutíma, utan þess sem tekið er fram í ráðningarsamningi, en skal gæta þess í hvívetna að blanda ekki nafni Samáls í slík störf.

5.      Önnur samskipti:

a.      Öll samskipti skulu einkennast af heiðarleika, gagnsæi  og nákvæmni:

b.      Þeir sem koma fram fyrir hönd Samáls skulu koma fram af heilindum og vera meðvitaðir um ábyrgð sína.

c.       Samál skal í störfum sínum hafa frumkvæði að reglubundinni og nákvæmri upplýsingagjöf um áliðnað á Íslandi.

d.      Hafa skal í huga að alþjóðleg fyrirtæki standa að félaginu. Engar stefnumarkandi yfirlýsingar má gefa án samráðs við aðildarfélög.

e.      Samál hefur ekki með höndum né veitir viðkvæmar upplýsingar um fjárhag aðildarfélaga sinna eða aðrar þær upplýsingar sem varðað gætu samkeppnismál eða innherjaupplýsingar.

Sjá einnig