Skilar orkusala til álvera arðsemi?

Þau sjónarmið heyrast stundum í umræðunni að ekki sé arðsemi af orkusölu til álvera og er jafnvel gengið svo langt að segja að orkan sé niðurgreidd til álvera. Óhætt er að segja að þessar staðhæfingar standast enga skoðun.

 

Uppbygging raforkukerfisins

Stofnun Landsvirkjunar og bygging Búrfellsvirkjunar á sjöunda áratugnum markaði iðnbyltingu á Íslandi, enda var uppbygging öflugs raforkukerfis í þessu fámenna, strjálbýla og harðbýla landi tröllvaxið verkefni. Þar munaði miklu um að samningarnir um álver í Straumsvík gerðu Íslendingum kleift að byggja raforkukerfið upp í stærri og hagkvæmari skrefum og með hagstæðari lánsfjármögnun en ella hefði verið.  

Ávinningurinn hefur verið margvíslegur, eins og kemur fram hjá Jóni Þór Sturlusyni hagfræðingi í Sögu Landsvirkjunar frá 2005, en þar nefnir hann „vinnulaun og skatttekjur, umfram það sem annars hefði orðið; virðisauka í öðrum atvinnugreinum, vegna sölu á aðföngum hvers konar; lægra orkuverð en ella vegna stærðarhagkvæmni í virkjun vatnsafls sem ekki myndi nýtast án samhliða sölu til stóriðju; jákvæð hagstjórnaráhrif, ef vel tekst til með tímasetningar framkvæmda; og síðast en ekki síst fjölþættingu frumframleiðslu í landinu.”

Í nýlegri greiningu Samtaka iðnaðarins kemur fram að frá því orkuuppbygging hófst fyrir alvöru hér á landi fyrir rúmum 50 árum, þá hafi farið að skilja verulega á milli efnahagslegrar velmegunar hér á landi og í flestum öðrum Evrópuríkjum. „Landsframleiðsla á mann, sem er einn mælikvarði á efnahagslega velmegun, fór á þessum tíma úr því að vera til jafns við meðaltal Evrópu yfir í að vera nú tæplega 50% meiri.”

 

Afkoma orkufyrirtækja

Mikil eignamyndun hefur átt sér stað í orkufyrirtækjum hér á landi síðustu áratugi, en þau eru að stærstum hluta í opinberri eigu. Í uppgjöri Landsvirkjunar fyrir árið 2021 kemur fram að rekstrartekjur fyrirtækisins jukust um rúm 23% frá fyrra ári og hafa aldrei verið hærri. Hagnaður nam 29,5 milljörðum króna og hækkaði um 64% milli ára. Meðalverð inn á heildsölumarkað til heimila og smærri fyrirtækja stóð í stað, en hækkaði til stórnotenda um 55%.

Í tilkynningu Landsvirkjunar kemur fram að hækkunina megi „einkum rekja til hagstæðra ytri skilyrða á ál- og orkumörkuðum og þess að endursamið hefur verið við flest fyrirtækin og greiða þau sambærileg verð og í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Bætta afkomu Landsvirkjunar á síðasta ári má því alfarið rekja til hækkunar á tekjum af sölu til stórnotenda.“

Áfram voru skuldir Landsvirkjunar lækkaðar og eru skuldahlutföllin nú sambærileg við systurfyrirtækin á Norðurlöndum, þrátt fyrir að rétt rúmur áratugur sé síðan Landsvirkjun réðist í sína stærstu fjárfestingu með byggingu Kárahnjúkavirkjun. Í tilkynningu fyrirtækisins kemur fram að ekki sé lengur þörf á að leggja áherslu á hraða lækkun skulda, arðgreiðslugetan hafi því aukist og er lagt til að arðgreiðslan verði 15 milljarðar vegna síðasta árs.“

Öfugt við það sem stundum er haldið fram, þá hefur verið góð arðsemi af rekstri Landsvirkjunar í gegnum tíðina. Í fyrrgreindri úttekt Jóns Þórs Sturlusonar frá 2005 segir „að ef Landsvirkjun væri rekin sem hvert annað einkafyrirtæki og verðlegði raforkuna í samræmi við hámörkun hagnaðar og samkeppni frá keppinautum, væri arðsemi af þeim fjármunum sem settir hafa verið í fyrirtækið væntanlega vel ásættanleg, á bilinu 5,1 til 7,4 prósent að raungildi.“ Er það þrátt fyrir ýmsa vaxtarverki sem Jón Þór telur upp, svo sem ótímabæra virkjun Blöndu, auk þess sem verðlagshöft og gengisþróun hafi á köflum leikið Landsvirkjun grátt.

 

Innlendur kostnaður álvera

Þjóðhagsleg arðsemi af áliðnaði felst ekki einungis í kaupum á raforku. Til marks um það má nefna að útflutningstekjur vegna álframleiðslu námu 208 milljörðum árið 2020. Þar af var innlendur kostnaður álvera um 93 milljarðar. Áætla má að raforkukaup hafi numið um 45 milljörðum, en þess utan fóru tæpir 25 milljarðar í kaup á vörum og þjónustu af hundruðum innlendra fyrirtækja. Þá námu laun og launatengd gjöld yfir 20 milljörðum, opinber gjöld um 3 milljörðum og styrkir til samfélagsmála um 100 milljónum.

Verðmæti álútflutnings í fyrra nam um 285 milljörðum, samkvæmt tölum Hagstofunnar, og jókst því um 77 milljarða á milli ára. Aukninguna má að mestu leyti til verðhækkana á álmörkuðum. Þetta eru um 23% af útflutningi vöru og þjónustu og um fjórðungur af gjaldeyristekjum þjóðarbúsins. Til samanburðar nam útflutningur iðnaðarvara í heild 397 milljörðum, útflutningur sjávarafurða 293 milljörðum og tekjur af ferðamönnum hérlendis og erlendis 204 milljörðum.

Aukið vægi útflutnings á áli og kísil hefur dregið úr sveiflum og styrkt og breikkað grundvöll efnahagslífsins, samkvæmt skýrslu Hagfræðistofnunar frá 2009. Bent er á að áratuga „reynsla Íslendinga af einhæfum útflutningi sjávarafurða með tilheyrandi sveiflum, bæði vegna aflabrests heima og verðsveiflna á erlendum mörkuðum, undirstrikar mikilvægi þess að búa við stöðugt gengi. Almennt gildir sú regla að því fjölbreyttari sem útflutningur er því minni verða ófyrirséðar sveiflur ár verðmæti hans.“

Eftir því sem stoðirnar eru fleiri, þeim mun traustari fótum stendur efnahagslífið.

Sjá einnig