- Samál Samtök álframleiðenda
- Borgartúni 35
- IS-105 Reykjavík
- Iceland
- Framkvæmdastjóri, Guðríður Eldey Arnardóttir er með síma 8200766
- samal@samal.is
Snjallvæðing, bætt orkunýting og nýjar tæknilausnir á ýmsum sviðum málmframleiðslu eru á meðal þess sem rætt verður á Nýsköpunarmóti Álklasans, sem haldið verður í hátíðarsal Háskóla Íslands kl. 14 þriðjudaginn 19. mars. Þegar dagskráin er skoðuð fer ekki á milli máli að það skilar framförum þegar samfella myndast í rannsóknum og tækniþróun. Þá verða framhaldssögur til.
Ein sagan er af nýjum íslenskum ofurjeppa sem sprotafyrirtækið Ísar hefur smíðað frumgerð að og verður til sýnis fyrir utan aðalbygginguna. Fyrir einungis tveimur árum afhjúpaði frumkvöðullinn Ari Arnórsson grindina að þessum umhverfisvæna bíl, sem er að uppistöðu til er úr áli, og var það á fyrsta Nýsköpunarmóti Álklasans, en þau eru haldin árlega, ýmist í Háskóla Íslands eða Háskólanum í Reykjavík. Enn er verk óunnið við þróun bílsins – þó að hann „lúkki“ er verkefnið í raun nýhafið!
Önnur saga er af frumkvöðlunum í DTE, sem hafa hannað og þróað búnað sem efnagreinir ál í rauntíma. Á Nýsköpunarmótinu fyrir tveimur árum fór Karl Ágúst Matthíasson yfir hvernig tengslanetið byggðist smám saman upp og að hvert púsl skipti máli í þeirri mynd, allt frá því drög voru lögð að grunnhugmyndinni hjá Eflu, samstarfi við álverin, stuðningi frá Klak Innovit og síðan var verkefnið hýst hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Loks var unnið að innleiðingu þess hjá Norðuráli, en þar sést glöggt hvernig öflug alþjóðleg fyrirtæki geta opnað frumkvöðlum glugga út í heim.
Fleiri komu að verkefninu á ýmsum stigum og er þetta einmitt grunnhugmyndin að klasasamstarfinu – að stytta boðleiðir og veita framfaramálum brautargengi. Á morgun verður það vísindamaðurinn Kristján Leósson sem fjallar um nýjustu þróun mála hjá DTE, en ljóst er að erfiðið hefur borið ávöxt hjá DTE, því fyrirtækið kynnti sína fyrstu vöru á alþjóðlegu álsýningunni í Dusseldorf í haust, þeirri stærstu sinnar tegundar í heiminum. Og það verður gaman að heyra framhald sögunnar.
Svo er það snjallvæðingin og fjórða iðnbyltingin. Sú saga er rétt að hefjast. Torfi Dan Þórhallsson frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands gerir skil snjallvæðingu í áliðnaði, en þar liggja tækifærin m.a. í betri stýringu framleiðsluferla, viðhaldsferlum og öryggismálum. Íslendingar hafa sýnt styrkleika sinn í hugvitsdrifinni nýsköpun, hvort sem það er í sjávarútvegi, afþreyingargeiranum eða tæknigeiranum, og þarna er verk að vinna.
Fjölmargar fleiri sögur verða sagðar á Nýsköpunarmótinu, svo sem af kolefnislausum skautum sem myndu útrýma kolefnislosun við álframleiðslu og því hvernig stöðugt er unnið að því að breyta úrgangi í afurðir. Þær sögur munu áreiðanlega eiga sér framhald, ekki síst vegna viðburða sem þessara.
Til að ýta undir það veitir Guðbjörg Óskarsdóttir klasastjóri háskólanemum hvatningarviðurkenningar og full ástæða er fyrir áhugasama nemendur að athuga hvort þeir finni ekki verkefni við hæfi í hugmyndagáttinni sem hleypt var af stokkunum fyrir tveimur árum.
Á heimasíðu Háskóla Íslands má fræðast nánar um dagskrána og skrá sig á viðburðinn.