- Samál Samtök álframleiðenda
- Borgartúni 35
- IS-105 Reykjavík
- Iceland
- Framkvæmdastjóri, Guðríður Eldey Arnardóttir er með síma 8200766
- samal@samal.is
"Við vildum ekki lengur selja tíma okkar heldur skapa virði og búa eitthvað til," segir Karl Ágúst Matthíasson frumkvöðull og einn þriggja stofnenda nýsköpunarfyrirtækisins DT Equipments (DTE) í samtali við Viðskiptablaðið í dag. "Niðurstaðan varð tæki sem mælir ál í kerjum álvera í rauntíma."
Félagið er stofnað af Karli Ágústi Matthíassyni, Sveini Hinriki Guðmundssyni og Eggerti Valmundarsyni, en þeir hafa unnið saman með HRV Engineering, ráðgjafarfyrirtæki verkfræðistofanna Verkís og Mannvits, sem hefur sérhæft sig í þjónustu við áliðnaðinn. Þeir munu vinna með verkfræðingum í Háskólanum í Reykjavík og Nýsköpunarmiðstöð Íslands og eru með aðstöðu þar.
DTE fékk nýverið úthlutað 15 milljóna króna styrk næstu þrjú árin úr Tækniþróunarsjóði RANNÍS. Þá tekur fyrirtækið þátt í viðskiptahraðlinum Startup Energy Reykjavík í næstu viku en þar mætast frumkvöðlar og fjárfestar. DTE var þar eitt af sjö fyrirtækjum sem náðu í gegn af 80 umsækjendum. DTE hefur sömuleiðis verið valið til þátttöku í norræna frumkvöðlaverkefninu Startup Sauna.
DTE hefur gert samstarfssamning við Norðurál vegna þróunar á greiningarbúnaðinum. Í Viðskiptablaðinu kemur jafnframt fram að fyrirtækið hafi landað sínum fyrsta samningi. Hann felur í sér afhendingu raðnúmerastimpils fyrir forskaut fyrir verksmiðju í eigu Century Aluminum, móðurfélags Norðuráls, í Vlissingen í Hollandi.