- Samál Samtök álframleiðenda
- Borgartúni 35
- IS-105 Reykjavík
- Iceland
- Framkvæmdastjóri, Guðríður Eldey Arnardóttir er með síma 8200766
- samal@samal.is
Starfsemi Alcoa á Reyðarfirði hefur reynst mikil innspýting fyrir atvinnulíf og menningu í Fjarðabyggð síðustu 11 ár. Þar starfa 550 manns, en til viðbótar eru 350 starfsmenn verktakafyrirtækja. Þetta kemur fram í viðtali sem Þóroddur Bjarnason blaðamaður Morgunblaðsins á við Magnús Þór Ásmundsson forstjóra Alcoa Fjarðaáls.
Ennfremur að Alcoa Fjarðaál flutti út vörur fyrir 81 milljarð króna á síðasta ári og að 36% urðu eftir í landinu. Þá greiddi félagið einn milljarð króna í skatta og opinber gjöld á Íslandi. Magnús Þór Ásmundsson forstjóri væntir þess að félagið byrji að borga tekjuskatt hér á landi snemma á næsta áratug.
„Upphafleg fjárfesting var 230 milljarðar króna og því eru árlegar afskriftir svo miklar að félagið nær aldrei að skila hagnaði til að það fari að borga tekjuskatt. Margir hafa viljað halda því fram að félagið muni aldrei borga tekjuskatt hér á landi, en ég tel líklegt að það hefjist snemma á næsta áratug miðað við sömu rekstrarforsendur,“ segir Magnús Þór Ásmundsson í viðtalinu.
Hann bendir þó á að það verði mikil verðmæti eftir í landinu í formi opinberra gjalda, launa, kaupa á vörum og þjónustu og samfélagsstyrkja. „Á síðasta ári nam þetta um 29 milljörðum króna eða um 36% af tekjum,“ segir Magnús en Alcoa Fjarðaál flutti út vörur fyrir 81 milljarð króna á síðasta ári.
Hér má lesa viðtalið í greinasafni Morgunblaðsins og hér er frétt um tekjuskattsgreiðslur Fjarðaáls á Mbl.is.