- Samál Samtök álframleiðenda
- Borgartúni 35
- IS-105 Reykjavík
- Iceland
- Framkvæmdastjóri, Guðríður Eldey Arnardóttir er með síma 8200766
- samal@samal.is
„Þetta er nokkuð sem menn hafa látið sig dreyma um að verði að veruleika einn daginn,“ segir Bjarni Már Gylfason, upplýsingafulltrúi Rio Tinto á Íslandi, í Morgunblaðinu í dag, um verkefni sem Alcoa, ríkisstjórn Kanada, Rio Tinto og Apple standa að.
Verkefnið snýr að því að losna alfarið við útblástur gróðurhúsalofttegunda í álframleiðslu. Fram kemur í tilkynningu sem Alcoa sendi frá sér að stórt skref hafi verið stigið í ferlinu og stefnt sé að því að verkefninu ljúki og sala á tækninni hefjist árið 2024.
Bjarni Már segir að langt sé síðan menn hófu rannsóknir sem miðuðu að því að minnka losun gróðurhúsalofttegunda við álframleiðslu.
Í frétt Mbl.is frá því í gær, kom fram að tæknirisinn Apple hefur ákveðið að fjárfesta 10 milljónum bandaríkjadala í verkefni sem snýr að því að þróa ál sem er umhverfisvænna en það sem þekkist í dag. Verkefnið vinnur Apple í samstarfi við Alcoa og Rio Tinto.
Sameiginlega verkefnið kallast Elysis en helsti tilgangur þess er að framleiða ál sem myndar ekki gróðurhúsalofttegundir. Um er að ræða tækni sem Alcoa hefur þróað árum saman og fengið Rio Tinto í lið með sér við frekari útfærslu.
Samkvæmt frétt Business Insider um málið er mikil álnotkun Apple ein helsta ástæða þess að það leggur í þetta stóra verkefni með Alcoa og Rio Tinto. Gangi allt að óskum mun sala á tækninni hefjast árið 2024.
Auk Apple, Alcoa og Rio Tinto munu kanadísk stjórnvöld og Quibec-fylki leggja fjármuni í verkefni; samtals 144 milljónir dollara.
Kanada tekur þátt en framkvæmdin fer fram í Quebec-fylki þar í landi. „Þetta mun skapa mörg þúsund störf fyrir Kanadabúa,“ sagði Justin Trudeau, forsætisráðherra landsins.