- Samál Samtök álframleiðenda
- Borgartúni 35
- IS-105 Reykjavík
- Iceland
- Framkvæmdastjóri, Guðríður Eldey Arnardóttir er með síma 8200766
- samal@samal.is
Það markaði tímamót í álframleiðslu á Íslandi þegar forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, tók á móti fyrstu álstönginni sem framleidd er með óvirkum rafskautum í Nýsköpunarmiðstöð Íslands.
Notuð eru rafskaut úr málmblöndum og keramiki í stað kolefnisskauta og yrði það bylting ef tækist að innleiða slíka tækni á stærri skala, því að þá losnar súrefni en ekki koltvísýringur við álframleiðsluna. Að verkefninu standa Arctus Metals, sem Jón Hjaltalín Magnússon er í forsvari fyrir, og Nýsköpunarmiðstöð Íslands, en það hefur notið rannsóknarstyrks frá Tækniþróunarsjóði frá 2016.
Hugsað í lausnum
Í ávarpi sínu af þessu tilefni minnti Guðni á mikilvægi nýsköpunar, ekki síst nauðsyn þess að leita umhverfisvænni leiða í framleiðslu og vöruþróun. Þar liggja tækifærin. Ál yrði áfram mikilvægur efniviður í daglegt líf fólks, en með því að hugsa í lausnum við framleiðslu þess mætti draga úr umhverfisáhrifum. Þá nefndi Guðni í gamansömum tón að þótt brautryðjandinn Jón Hjaltalín Magnússon hjá Arctus Metals væri kominn af léttasta skeiði, þá væri hann í fararbroddi framsýnna frumkvöðla; í heimi nýsköpunar ætti kynslóðabil ekki heima.
Víst er það að Jón Hjaltalín hefur lyft grettistaki í áliðnaði og komið að nýsköpun og innleiðingu nýrrar tækni í álverum um allan heim. Vakti hann athygli á því í sínu erindi að ef óvirk skaut væru tekin í notkun í álverinu í Straumsvík, þá myndi það framleiða súrefni til jafns við 500 ferkílómetra skóg.
Þá ítrekaði hann það sem áður hefur komið fram að álframleiðsla losar hvergi minna en á Íslandi. Munar þar mestu um að álver á Íslandi eru knúin með sjálfbærum og endurnýjanlegum orkugjöfum, en á heimsvísu er það orka úr jarðefnaeldsneyti á borð við kol og gas sem losar mest við álframleiðslu. Þess vegna er kolefnisfótspor álframleiðslu margfalt hærra í löndum á borð við Kína, þar sem 90% af orkunni er sótt til kolaorkuvera.
Það er raunar áhugaverð staðreynd að ef óvirk skaut verða innleidd í íslenskum álverum, þá verður losun hér á landi hverfandi af álframleiðslu. En slík tæknibylting dregur einungis úr losun um 15% í álverum sem knúin eru með kolum.
Þekking og sérhæfing hér á landi
Enn eru ljón í veginum í frekari tækniþróun, einkum við að skala upp framleiðsluna. Nú þegar hefur verið lagður grunnur að samstarfi Arctus og NMÍ við álfyrirtækið Trimet um að keyra tilraunaker í fullri stærð í einu af álverum þess í þýskalandi. Fáist íslenskt fjármagn að verkefninu verður hönnun og framleiðsla á kerjum og stjórnbúnaði unnin á Íslandi.
Er það til marks um þá þekkingu og sérhæfingu sem skapast hefur í klasanum í kringum íslenska álframleiðslu í áratugi, en skemmst er að minnast þess að tvær íslenskar verkfræðistofur, Verkís og Mannvit, komu að uppsetningu nýrrar kerlínu í Karmøy í Noregi, sem er sögð sú umhverfis- og orkuvænsta í heiminum.
Það er svo ánægjulegt að tvö álfyrirtæki á Íslandi, Rio Tinto og Alcoa, hleyptu af stokkunum verkefninu Elysis í samstarfi Apple og kanadísk stjórnvöld árið 2018, þar sem stefnt er að því að setja á markað nýja tækni til að framleiða ál með óvirkum skautum árið 2024. Veitti Apple viðtöku fyrsta álinu sem framleitt er með þeim hætti í desember síðastliðnum. Það væri verðugt verkefni fyrir íslensk stjórnvöld að stimpla sig inn í það samstarf með einhverjum hætti til að efla enn frekar sérhæfingu á þessu sviði hér á landi.
Gas í grjót
Þá fjallaði BBC nýverið um samstarf íslenskra stjórnvalda og stóriðju á Íslandi um þróun nýrrar tækni til að dæla niður kolefni sem myndast við málmframleiðslu. Ætli besta lýsingin á því ferli sé ekki „gas í grjót“. Undirstrikað er í aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum að til standi að gera það verkefni að veruleika.
Engum blöðum er um það að fletta að tækifærin eru fyrir hendi til að breyta ógnunum í tækifæri í loftslagsmálum og þar hefur Ísland hlutverki að gegna. Til þess að vera í forystu á þessu sviði þarf innviði og fjármagn. Jón Hjaltalín sagði nauðsynlegt að fyrirtæki með brautryðjandi viðskiptahugmyndir hefðu aðgang að sérfræðingum rannsóknarstofnunar á borð við Nýsköpuarmiðstöð og tækjabúnaði á borð við rafeindasmásjá, frumgerðasmíði og tilraunstofu. Annars væri hætta á að hátækninýsköpun leitaði úr landi.
Forsendan er auðvitað gróskumikið atvinnulíf. Öflugir grunnatvinnuvegir eru næringarríkasta gróðurmoldin fyrir nýsköpun. En til þess að þeir haldi áfram að fjárfesta og taka virkan þátt í fjórðu iðnbyltingunni, þá þarf rekstrarumhverfið að vera sjálfbært og samkeppnishæft. Þar er verk að vinna.
Pétur Blöndal
framkvæmdastjóri Samáls
Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 26. júní 2020.
framkvæmdastjóri Samáls, Samtaka álframleiðenda