- Samál Samtök álframleiðenda
- Borgartúni 35
- IS-105 Reykjavík
- Iceland
- Framkvæmdastjóri, Guðríður Eldey Arnardóttir er með síma 8200766
- samal@samal.is
Þrátt fyrir erfið rekstrarskilyrði í íslenskri álframleiðslu á árinu 2019 skilaði greinin 213 milljörðum í útflutningstekjur, þar af nam innlendur kostnaður um 91 milljarði en það eru beinharðar gjaldeyristekjur sem renna inn í þjóðarbúið. Áætla má að tæpur helmingur af því hafi verið raforkukostnaður.
Það er því ljóst að hagur samfélagsins felst ekki einvörðungu í því að selja raforku til þeirra álvera sem hér starfa, eins og stundum er haldið fram, heldur varðar það miklu að framleiðslan sjálf skjóti rótum hér á landi. Það margfaldar verðmætasköpunina.
Þegar rýnt er nánar í umsvifin keyptu íslenskir álframleiðendur vörur og þjónustu af hundruðum innlendra fyrirtækja um allt land fyrir 24,3 milljarða í fyrra. Hjá mörgum þessara fyrirtækja er þjónusta við áliðnaðinn burðarverkið í starfseminni.
Laun og launatengd gjöld námu tæpum 20 milljörðum. Um 1.500 manns starfa hjá álverunum og auk þess sinna þar daglegum störfum 435 starfsmenn verktakafyrirtækja. Ef einnig er horft til óbeinna starfa má gera ráð fyrir að störfin séu um fimm þúsund.
105 starfsmenn stunduðu nám í stóriðjuskóla, en öll álverin bjóða starfsfólki sínu upp á að bæta þannig menntun sína og þekkingu samhliða daglegum störfum. Skattar og opinber gjöld námu 2,8 milljörðum, en öll voru álverin rekin með tapi í fyrra. Fjárfestingar námu tæpum fjórum milljörðum og styrkir til samfélagslegra verkefna 236 milljónum.
Álframleiðslan nam 860 þúsund tonnum í fyrra og dróst nokkuð saman á milli ára. Munaði mestu um að loka þurfti einum kerskála af þremur hjá Isal vegna óstöðugleika í kerjum, en Norðurál og Fjarðaál framleiddu ekki heldur á fullum afköstum. Ljóst er að sagan endurtekur sig á þessu ári, en Isal hefur dregið verulega úr framleiðslu og Norðurál látið vera að kaupa viðbótarraforku, en bæði bera fyrirtækin því við að orkuverðið sé ósamkeppnishæft.
Staðan er raunar alvarleg víðar í íslenskum orkuiðnaði, eins og ljóst er af lokun PCC á Bakka og gagnrýni á ósamkeppnishæft orkuverð frá gagnaverum á Íslandi.
Nokkuð hefur verið rætt um offramleiðslu áls í Kína, en þar er yfir helmingur heimsframleiðslunnar. Eftir að tollastríð hófst milli Kína og Bandaríkjanna hefur álið leitað í meira mæli til Evrópu. Það hefur aftur grafið undan álverði, að minnsta kosti til skamms tíma. Engu að síður eru lönd á borð við Noreg, Kanada, Bandaríkin og Þýskaland öflug í álframleiðslu.
Verð á áli og súráli ræðst á heimsmarkaði og þar sitja fyrirtækin almennt við sama borð, þannig að það er fyrst og fremst í kostnaði sem álverin keppa. Kostnaðarkúrvan er frekar flöt í álframleiðslu, eins og fram kom í erindi sérfræðings greiningarfyrirtækisins CRU á fundi Landsvirkjunar fyrr á þessu ári, þannig að staðbundinn kostnaður skiptir verulegu máli fyrir samkeppnishæfnina. Þar er stærsti einstaki kostnaðarliðurinn raforkan.
Það er auðvitað löngu ljóst að álframleiðsla hefur skotið rótum hér á landi og ekki aðeins stuðlað að uppbyggingu öflugs og hagkvæms raforkukerfis í þessu fámenna og strjálbýla landi, heldur einnig skilað miklum verðmætum í þjóðarbúið hvort sem horft er til beinna áhrifa eða óbeinna.
Í fyrra voru 50 ár frá því álframleiðsla hófst á Íslandi, en það var forsendan fyrir stofnun Landsvirkjunar og byggingu Búrfellsvirkjunar. Það færði fleiri stoðir undir verðmætasköpunina, dró úr sveiflum og lyfti lífskjörum, enda hefur landsframleiðsla á mann vaxið um 50% meira hér á landi en almennt í Evrópu.
En til þess að íslenskur orkuiðnaður verði sjálfbær og dafni til langrar framtíðar þurfa stjórnvöld að tryggja samkeppnishæft rekstrarumhverfi. Nýverið gáfu Samtök iðnaðarins út skýrslu um orku- og raforkumál með tillögur að úrbótum. Þar er meðal annars lagt til að tryggja þurfi „samkeppnishæft raforkuverð, þ.m.t. dreifi- og flutningskostnað, í samanburði við önnur lönd þar sem litið verði m.a. til opinberra endurgreiðslna á grundvelli umhverfissjónarmiða vegna nýtingar á grænni orku.“
Þegar öllu er á botninn hvolft er það nefnilega ekki aðeins raforkuverðið sem skiptir máli, heldur verð á raforku úr innstungu, ef svo má segja, þar sem flutningskostnaðurinn er meðtalinn, en hann er mun hærri hér á landi en til dæmis í Noregi. Þá verður einnig að horfa til endurgreiðslna ríkja á sameiginlegum orkumarkaði ESB vegna ETS og ýmiss konar styrkja sem stóriðjufyrirtækjum standa til boða á meginlandinu.
Það er mikið í húfi að íslensk stjórnvöld haldi vöku sinni, þannig að botninn detti ekki úr orkuiðnaði á Íslandi. Ef það gerist hverfur íslenskt atvinnulíf 50 ár aftur í tímann.
Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls.
Grein sem birtist í Morgunblaðinu 29. júlí 2020.