- Samál Samtök álframleiðenda
- Borgartúni 35
- IS-105 Reykjavík
- Iceland
- Framkvæmdastjóri, Guðríður Eldey Arnardóttir er með síma 8200766
- samal@samal.is
Verktaka er með mismunandi hætti í álverunum þremur hér á landi, mest hjá Alcoa Fjarðaáli á Reyðarfirði en minnst hjá Norðuráli á Grundartanga. Guðmundur Magnússon fjallar um verktöku hjá álverum í Fréttaskýringu í Morgunblaðinu. Þar segir orðrétt:
„Deilan sem setti allt í hnút í kjaraviðræðunum hjá álverinu í Straumsvík í sumar, áður en málið var lagt til hliðar í bili, snerist um rétt fyrirtækisins til að setja fleiri verkþætti í sjálfstæða verktöku. Það felur í sér að einhverjum hópi fastráðinna starfsmanna er sagt upp og samið við utanaðkomandi verktaka um að sinna störfunum. Talsmenn starfsmanna, segja að áform fyrirtækisins feli í sér að um eitt hundrað starfsmenn verði verktakar. Það er mikil breyting á vinnustaðnum. Andstaðan stafar af því að með breytingunni þurfa starfsmenn að afsala sér ýmsum, réttindum sem þeir hafa nú. Staða verktaka á vinnumarkaði er allt önnur en launþega.
Álverið í Straumsvík, sem nú er rekið undir merkjum alþjóðafyrirtækisins Rio Tinto Alcan, er elsta fyrirtæki sinnar tegundar á Íslandi. Það hóf starfsemi árið 1969. Þá nálguðust menn rekstur af þessu tagi með allt öðrum hætti en í dag. Lítið dæmi þess er að enn sitja tveir fulltrúar ríkisstjórnar Íslands í stjórn fyrirtækisins. Tvö önnur álver hafa síðan hafið starfsemi hér á landi, Norðurál á Grundartanga 1998 og Alcoa Fjarðaál á Reyðarfirði 2007. Talsvert er um verktöku hjá báðum þessum fyrirtækjum, sérstaklega hjá hinu síðarnefnda og hefur það ekki leitt til vandkvæða í samskiptum við verkalýðsfélög fastra starfsmanna.
Að sögn Péturs Blöndal, framkvæmdastjóra Samtaka álframleiðenda, eru um 1.500 manns fastráðnir hjá álverunum þremur. Starfsmenn á vegum verktakafyrirtækja hjá álverunum eru um 600. Fjöldi verktaka er afar mismunandi hjá einstökum álverum. Í Straumsvík eru um 500 fastráðnir og 100 verktakar. Hjá Norðuráli eru rúmlega 500 starfsmenn og 60 verktakar. Hjá Alcoa Fjarðaáli eru fastir starfsmenn 470, en 400 manns eru á vegum verktakafyrirtækja.
Pétur segir að það hafi frá upphafi verið stefna Alcoa Fjarðaáls að úthýsa verkefnum til annarra aðila á Austurlandi. Fyrir vikið hafi byggst upp nokkur öflug fyrirtæki frá grunni sem veiti víðtæka þjónustu á svæðinu. Á heimasíðu Alcoa segir að mikið sé lagt upp úr að álverið starfi í anda sjálfbærrar þróunar. „Liður í þessari stefnu fyrirtækisins er að einbeita sér að sjálfri álframleiðslunni, en bjóða ýmsa stoðþjónustu út til annarra fyrirtækja og gera þeim þannig kleift að byggja upp starfsemi á Austurlandi.“
Í kjaraviðræðunum í Straumsvík og á starfsmannafundum hafa stjórnendur álversins komið þeim boðskap mjög fast á framfæri að auka verði hlutfall verktaka hjá fyrirtækinu umtalsvert. Hefur verið gefið í skyn að án slíkra breytinga séu rekstrarforsendur brostnar. Óljóst er hvert framhald málsins verður. En mikið er í húfi því álverið er einn af stærri og eftirsóttari vinnustöðum á Íslandi.“
Í fréttaskýringunni er ennfremur fjallað um einstök dæmi verktöku undir fyrirsögninni „Skapað tækifæri“:
„Alcoa-Fjarðaál hefur lagt áherslu á að bjóða ýmsa stoðþjónustu út til annarra fyrirtækja og gera þeim þannig kleift að byggja upp starfsemi á Austurlandi. Nefna má að fyrir um áratug stofnaði Lára Eiríksdóttir á Eskifirði hreingerningafyrirtækið Fjarðaþrif utan um aukavinnu sína og rak sem einyrki. Við stofnun Alcoa fékk hún samning um þrif hjá fyrirtækinu. Þá réð hún tíu manns til starfa. Fjarðaþrif hafa síðan eflst og dafnað og sinna nú hreingerningum fyrir fyrirtæki og heimili víða á Austurlandi. Fyrirtækið Lostæti hefur annast mötuneyti Alcoa. Starfsemin fyrir Alcoa hefur gert stofnendunum mögulegt að færa út kvíarnar á Austurlandi.“