Eftirspurn þrefaldast eftir áli á 20 árum

 

Eftirspurn eftir áli á heimsvísu hefur vaxið mun hraðar á síðustu misserum en spár gerðu ráð fyrir. Á haustfundi Evrópsku álsamtakanna sem haldinn var á dögunum kom fram að vöxturinn yrði um 6,9% á þessu ári og búist væri við að eftirspurnin færi í 53,5 milljónir tonna. Til samanburðar má geta þess að eftirspurn fór í fyrsta skipti yfir 50 milljónir tonna árið 2013.

Eftirspurn yfir 60 milljónir tonna árið 2016

Landslagið hefur breyst mikið frá bankahruninu sem tröllreið heimsmörkuðum. Þegar Alcoa Fjarðaál hóf starfsemi árið 2008 var samdráttur í eftirspurn í heiminum upp á 0,7% og samdrátturinn var 7,7% árið 2009, en markaðirnir voru fljótir að taka við sér og árið 2010 fór framleiðslan í fyrsta skipti yfir 40 milljónir tonna. Síðan þá hefur vöxturinn verið mikill. Það segir sína sögu að búist er við að eftirspurn fari yfir 60 milljónir tonna þegar árið 2016. Hún var einungis þriðjungur af því fyrir 20 árum.

Um leið er eftirtektarvert að eftirspurn í Evrópu, sem er helsti markaður íslenskra álframleiðenda, er fyrst núna að ná sömu hæðum og árið 2008. Spáð er heilbrigðum vexti í eftirspurn, 2,2% á þessu ári og 2,9% á því næsta, en vöxturinn var flatur árið 2013 og samdráttur árið 2012. Horfurnar eru því bjartari en verið hefur um nokkurt skeið. 

ESB flytur inn yfir helming af áli til framleiðslu

Á móti kemur að álframleiðsla innan Evrópusambandsins hefur dregist saman um þriðjung frá árinu 2007. Sú þróun er  fyrst og fremst vegna kostnaðar við regluverk ESB sem bætir 11% við framleiðslukostnaðinn, samkvæmt úttekt CEPS fyrir framkvæmdastjórn ESB. Engin leið er fyrir álfyrirtækin að velta því út í álverðið, þar sem það ræðst á heimsmarkaði.

Fyrir vikið fluttu Evrópusambandsríkin í fyrsta skipti inn árið 2013 yfir 50% af öllu áli sem þau notuðu til framleiðslu. Í þeirri þróun felst tækifæri fyrir Íslendinga, eins og Gerd Götz framkvæmdastjóri Evrópsku álsamtakanna benti á á ársfundi Samáls síðastliðið vor, en Ísland hefur á sama tíma aukið sína framleiðslu og nýtur þess að vera nálægt mörkuðum ESB. Það tekur til dæmis um viku að flytja álið héðan á markaði ESB, en um fjórar vikur frá Mið-Austurlöndum sem einnig setur markið á Evrópu.

Af þessu má ráða að þó að markaðirnir hafi ekki vaxið eins hratt í Evrópu og í Asíu eða Kína hefur svigrúm fyrir útflutning frá Íslandi aukist verulega. Ekki er útlit fyrir að það breytist á næstunni. Örlítill samdráttur verður á álframleiðslu á þessu ári innan ESB og örlítill vöxtur á því næsta, sem kom mönnum raunar verulega á óvart á þingi Evrópsku álsamtakanna. En ekki er útlit fyrir frekari vöxt í framhaldinu. „This is it!“ eins og einhver sagði.

Eftirspurn fer vaxandi í Evrópu

Þegar litið er til framleiðslu á heimsvísu þá er hún í jafnvægi. Á þessu ári verður umframframleiðsla upp á tæp 300 þúsund tonn, en á næsta ári er spáð svipaðri umframeftirspurn. Það eru ekki háar tölur í heildarsamhenginu. En athyglisvert engu að síður, því 2015 verður þá fyrsta árið eftir 2008 þar sem er umframeftirspurn á heimsvísu að Kína meðtöldu. Umframeftirspurnin er hinsvegar mikil ef einungis er horft til heimsins utan Kína, ekki síst í Norður-Ameríku og Evrópu.

Eftir stendur að eftirspurn í Evrópu fer vaxandi; hún var 0,1% árið 2013 en stefnir yfir 2% fyrir árið 2014. Dregið hefur  úr framleiðslu í Brasilíu, Argentínu og Indlandi vegna takmarkana á framboði orku og báxíts. Aukin framleiðsla er í pípunum í Mið-Austurlöndum árið 2014, en eftir það eru engar meiriháttar fjárfestingar í pípunum í þessum heimshluta, þrátt fyrir vaxandi eftirspurn. 

Ein af þeim spurningum sem velt var upp á fundinum var sú, hvaða ríki myndu grípa vöxtinn í Evrópu. Kína hefur ekki flutt frumframleitt ál til Evrópu. Mið-Austurlönd gera sig gildandi, en síður Rússland. Og svo er sett spurningamerki við Ísland og Noreg. Þar liggja tækifæri til frekari verðmætasköpunar.  

Pétur Blöndal

Höfundur er framkvæmdastjóri Samáls, samtaka álframleiðenda.

Sjá einnig