Góðar horfur á álmarkaði

 

Það eru jákvæð tíðindi að álverð sé að styrkjast og að álbirgðir fari minnkandi í heiminum. Álverð á heimsmarkaði tekur mið af viðskiptum í kauphöll LME og þar fór verðið lægst rétt undir 1.700 dollara á síðasta ári. Nú er LME-verðið tæpir 2.100 dollarar. Á sama tíma er eftirspurn að aukast og birgðir fara lækkandi.

Öflugasta raforkukerfi í heimi

Það þekkja Íslendingar vel að það verða sveiflur í öllum iðngreinum. Í áliðnaðinum er gengið út frá því, enda er þar ekki hugsað til mánaða eða ára, heldur áratuga. Stofnfjárfestingin er há og það tekur langan tíma að greiða þá fjárfestingu niður. Það er flestum ljóst að á áratugum verða óhjákvæmilega sveiflur á framboði og eftirspurn – og það sveiflar verðinu. Í niðursveiflu er jafnan gott að hugsa til þess að í kjölfarið kemur uppsveifla, það felst í skilgreiningunni, og þá uppskera þeir sem hafa verið þolgóðir og fyrirhyggjusamir.

Það gildir raunar jafnt um orkufyrirtæki og álfyrirtæki. Það var ánægjulegt að heyra þau tíðindi á ársfundi Landsvirkjunar í vor að miðað við óbreyttar forsendur gæti fyrirtækið greitt upp allar sínar skuldir á innan við tíu árum. Og síðan þá hefur álverð farið hækkandi. Lykillinn að því að Íslendingar hafa byggt upp öflugasta raforkukerfi í heiminum miðað við höfðatölu eru farsæl viðskipti við áliðnaðinn, sem hefur staðið af sér allar sveiflur í nær hálfa öld, og um leið hefur það tryggt íslenskum almenningi meira afhendingaröryggi á orku og lægra verð en tíðkast víðast hvar á byggðu bóli.

Frumframleiðsla á áli í heiminum allt frá upphafi er um milljarður tonna. Af þessum milljarði tonna munar mest um framleiðslu síðustu ára, en eftirspurn hefur aldrei verið meiri og fór í fyrsta skipti yfir 50 milljónir tonna á síðasta ári. Greinendur á markaði gera ráð fyrir um 6% árlegum vexti á næstu árum.

Dregur úr útblæstri

Áliðnaður er samt tiltölulega nýr af nálinni – einungis rúm 150 ár síðan ál var tekið í vinnslu. Þó að það sé eitt algengasta frumefni jarðar, þá fyrirfinnst það hvergi í hreinu formi í náttúrunni, heldur er það einangrað með rafgreiningu og tókst það fyrst um miðja 19. öld.

Í fyrstu var álið einungis til skreytingar og notað í skartgripi, en nú kemur það við sögu á nánast öllum sviðum mannlífsins. Allt frá því Wright-bræður urðu fyrstir til að fljúga flugvél, sem knúin var áfram af vél úr hinum létta málmi árið 1903, þá hefur ál verið samofið flugsögunni og fyrsti kostur í smíði flugvéla af öllum stærðum og gerðum.

Ástæðuna fyrir ört vaxandi eftirspurn má meðal annars rekja til aukinnar notkunar áls í bílum. Vaxandi kröfur eru um það, ekki síst á Vesturlöndum, að dregið verði úr eldsneytisbrennslu og útblæstri bílaflotans. Ekki þarf að orðlengja, að þar gegnir léttleiki og um leið styrkleiki álsins lykilhlutverki. Þumalputtareglan er sú, að fyrir hvert kíló af áli sem notað er í bifreiðar megi spara 20 kíló af koldíoxíði á meðallíftíma farartækisins.

Álnotkun í bílum þrefaldast

Nýverið kom fram í Fréttablaðinu að einn stærsti álframleiðandi í heiminum, Novelis, hefði spáð því að álnotkun í bifreiðum myndi þrefaldast til ársins 2020 og verða um fjórðungur af allri álframleiðslu í heiminum. Það segir sína sögu um hversu byltingarkennd sú spá er, að nú er hlutfallið um 9%.

En þegar litið er til þessarar þróunar, þá skiptir ekki síður máli hversu ál er endingargott og að það megi endurvinna endalaust. Þriðjungur af öllu áli sem framleitt hefur verið í heiminum er enn í notkun. Þar af eru um 35% í byggingum, 30% í raflögnum og um 30% í samgöngutækjum. Einungis 1% er fólgið í umbúðum á hverjum tíma, enda notkun þeirra sjaldnast ætluð til langs tíma. En það þýðir líka, að miklu varðar að þær séu úr endurvinnanlegu efni. Ég nefni sem dæmi að dósir úr áli eru sú vara sem er hvað mest endurunnin og þær rata aftur í búðarhillur um sex vikum eftir notkun.

Það er mikilvægt í þessu ferli, að þegar ál er endurunnið krefst það einungis um 5% af þeirri orku sem fór í frumframleiðslu þess. Fjárhagslegur hvati til endurvinnslu er því mikill.

Pétur Blöndal

Höfundur framkvæmdastjóri Samáls, samtaka álframleiðenda.

Sjá einnig