Tveir afskekktir staðir á jarðarkringlunni

 

Það er staður á jarðarkringlunni sem telur um 300 þúsund íbúa og er um 100 þúsund ferkílómetrar. Þessi staður liggur utan alfaraleiðar og þar er fimbulkuldi á veturna. Þetta er eyland – einangrað og fjarri mörkuðum. Lýsingin hljómar óneitanlega kunnuglega. Nema eylandið sem skírskotað er til er ekki umlukið sjó, heldur skógi og næsta þéttbýli er í 300 km akstursfjarlægð. Það er margt líkt með Saguenay-héraði í Quebec í Kanada og Íslandi.

Klasasamtök, nýsköpun og þróun

Þannig hófst erindi Rannveigar Rist, forstjóra Rio Tinto Alcan, á ársfundi Samáls á vordögum. Í máli hennar kom fram að helstu atvinnuvegir væru tengdir nýtingu auðlinda, skóga í Saguenay og sjávar á Íslandi. Þá væri áliðnaður grunnatvinnuvegur á báðum stöðum, sem byggðist á nýtingu endurnýjanlegrar orku, og væri framleiðslugetan svipuð, ein milljón tonna á ári í Saguenay en um 800 þúsund tonn á ári á Íslandi.

Um síðustu aldamót voru stofnuð klasasamtök í Saguenay sem kallast Áldalurinn og er meginmarkmiðið að efla virðisaukandi starfsemi sem nýtir ál í dalnum og ýtir undir vöxt fyrirtækja á svæðinu með stuðningi við nýsköpun og þróun. Stefnan var sett á að bjóða þekkingu og lausnir í áliðnaði sem spönnuðu allt framleiðsluferlið frá upphafi til enda. En einnig að styðja við stofnun og starfsemi sprotafyrirtækja sem ýmist þjónusta áliðnaðinn eða framleiða vörur úr áli. Allir lögðust á eitt, álfyrirtækin, álklasinn og stjórnvöld. Og það skilaði árangri.

Til marks um það má nefna að Áldalurinn er í fremstu röð í heiminum í rannsóknum og þróun í áliðnaði. Þar er víðfeðmt net doktora í áli sem teygir sig til fyrirtækja, háskóla og rannsóknarsetra og upp hafa sprottið 100 lítil og meðalstór fyrirtæki með sérhæfingu á þessu sviði. Stjórnvöld hafa leikið stórt hlutverk í þessari þróun með öflugu menntakerfi þar sem horft er til áliðnaðarins, rannsóknarsetrum og skattaívilnunum til rannsóknar- og þróunarstarfs og stuðningi við frumkvöðla. Íslendingar hafa stigið mörg framfaraskref á síðustu árum, álframleiðslan er orðin háþróaðri, afurðirnar flóknari og verðmætari, og iðnaðurinn í kringum álverin öflugri en áður. En við getum náð mun lengra með slagkrafti hundraða fyrirtækja sem starfa í áliðnaði hér á landi og átaki í menntun, rannsóknum og þróun.

Tækifærin eru til staðar

Í Saguenay er mikið lagt upp úr nálægð við markaðinn í Norður-Ameríku. En Íslendingar eru hinsvegar í kjörstöðu gagnvart Evrópu. Ísland er næststærsti frumframleiðandi áls í Evrópu á eftir Noregi og í því felast sóknarfæri að flutt eru inn yfir 50% af öllu frumframleiddu áli sem notað er innan Evrópusambandsins. Það sýnir vel umfangið að meðalvirði álútflutnings frá Íslandi á árunum 2010 til 2012 var um 237 milljarðar á ári eða sem samsvarar um það bil 40% af heildarvöruútflutningi landsins á þessu tímabili. Í fyrra voru verðmætin 217 milljarðar. Nánast allur þessi útflutningur er til Evrópulanda og yfir 97% af virði útflutnings á áli koma frá löndum sem tilheyra Evrópska efnahagssvæðinu.

Eftirspurn fer vaxandi um leið og markaðir taka við sér og tækninni fleygir fram. Það var ánægjulegt að lesa um það í Morgunblaðinu í liðinni viku að álverð hefði hækkað um 10% og ekki verið hærra í 17 mánuði, en á sama tíma fara birgðir í heiminum minnkandi í hlutfalli við eftirspurn.

Tækifærin eru til staðar og þess vegna var mikilvægt þegar yfir 40 fyrirtæki og stofnanir komu saman í Borgarnesi í apríl til að marka stefnu fyrir álklasann. Miklir hagsmunir eru í húfi fyrir íslenskt efnahagslíf, enda keyptu álverin vörur og þjónustu fyrir yfir 30 milljarða árið 2013 og er þá raforka ekki meðtalin. Þegar allt er talið nemur kostnaður álveranna sem til fellur hér á landi hátt í 100 milljörðum. Þess utan hafa verkfræðistofur á borð við HRV og EFLU selt þjónustu til álvera um alla jarðarkringluna og VHE er í fremstu röð á heimsvísu þegar kemur að hugviti og vöruþróun sem nýtist áliðnaðinum um allan heim.

Rannsóknarsetur og meistaranám

Efst á blaði á stefnumótunarfundinum í Borgarnesi var að stofna rannsóknarsetur, koma á meistaranámi á háskólastigi og formgera álklasann. Í samstarfi háskólastofnana og Nýsköpunarmiðstöðvar er sú vinna komin vel á veg og má búast við frekari tíðindum af því í haust. Í því felst mikið forskot að hafa öflug alþjóðleg fyrirtæki hér heima, sem eru eins og sýningargluggi út í heim fyrir íslenska sérhæfingu og þekkingu í áliðnaði. Það er mikilvægt fyrir eylandið Ísland að hér sé fjölbreytt atvinnuflóra og þar skiptir sköpum að eiga öfluga útflutningsatvinnuvegi eins og orku- og áliðnaðinn.

Í marsmánuði kom hingað til lands Julien Gendron frá áldalnum í Quebec sem átt hefur þátt í að stofna 18 álklasa um heim allan og átti hann meðal annars fund með iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Honum varð tíðrætt um tækifærið til frekari uppbyggingar, rannsóknar og þróunar, sem fælist í öflugum áliðnaði hér á landi. Þegar horft er til sóknar og uppbyggingar í atvinnulífinu er mikilvægt að hafa traustan grunn til að byggja á.

Það höfum við Íslendingar lært.

Pétur Blöndal

Höfundur er framkvæmdastjóri Samáls, samtaka álframleiðenda.

Sjá einnig