- Samál Samtök álframleiðenda
- Borgartúni 35
- IS-105 Reykjavík
- Iceland
- Framkvæmdastjóri, Guðríður Eldey Arnardóttir er með síma 8200766
- samal@samal.is
Það má segja að iðnvæðing á Íslandi hafi hafist fyrir alvöru með álverinu í Straumsvík fyrir hartnær hálfri öld. Síðan þá hefur byggst upp gróskumikill klasi í áliðnaðinum með fjölbreyttri flóru fyrirtækja sem hafa sérhæft sig í þjónustu við álverin. Þar munar um þá miklu uppbyggingu sem hefur átt sér stað hér á landi síðasta áratug. Nú er svo komið að íslensk fyrirtæki flytja út búnað og þekkingu til álvera í öllum heimsálfum, að suðurskautinu undanskildu.
Þess misskilnings gætir stundum að fyrirtækin sem starfa í áliðnaðinum hér á landi séu teljandi á fingrum annarrar handar. Það er fjarri lagi. Nægir að vísa til þess að árið 2012 greiddu álverin 60 þúsund reikninga til yfir 700 fyrirtækja upp á samtals um 40 milljarða og er raforkan þá ekki meðtalin. Alls námu innlend útgjöld álveranna um 100 milljörðum. Í því samhengi má nefna að heildarkostnaður við rekstur Landspítalans á þessu ári er samkvæmt fjárlögum um 40 milljarðar.
Undanfarið hefur verið unnið að stofnun samstarfsvettvangs um álklasa hér á landi. Er fyrirmyndin meðal annars sótt til Kanada þar sem klasastarf hefur skilað fyrirtækjum í áliðnaðinum miklum virðisauka. Óhætt er að segja að það hafi markað tímamót þegar fulltrúar um 40 fyrirtækja og stofnana komu saman í Borgarnesi á tveggja daga fundi í byrjun apríl til að móta stefnu og framtíðarsýn álklasans á Íslandi.
Lagt var upp úr því að á fundinum yrði þverskurður þeirra fyrirtækja og stofnana sem hafa aðkomu að áliðnaðinum. Í framhaldi af því er stefnt að því að greina álklasann frekar og kalla fleiri fyrirtæki að borðinu.
Á meðal þeirra sem sóttu fundinn voru fulltrúar frá álverunum, verkfræðistofum, vélsmiðjum, málmsmiðjum og tæknifyrirtækjum. Þá voru þar fulltrúar Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík, Keilis Símenntunar, Nýsköpunarmiðstöðvar, Hönnunarmiðstöðvar og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.
Nú er unnið úr niðurstöðum stefnumótunarvinnunnar og verða þær kynntar á ársfundi Samáls, samtaka álframleiðenda, þriðjudaginn 20. maí næstkomandi. Til stendur að leggja meiri áherslu á samstarf við menntakerfið, ekki síst háskólasamfélagið, meira verður lagt upp úr rannsóknum og þróunarstarfi, og áhugi er á meiri úrvinnslu úr áli hér á landi.
Eitt af því sem stendur upp úr er hversu mikilvægt er að markaðssetja þá þekkingu og sérhæfingu utan landsteinanna sem skapast hefur í áliðnaðinum hér á landi.
Íslendingar búa að því að vera næststærstu álframleiðendur í Evrópu á eftir Norðmönnum. Í því felast veruleg sóknarfæri fyrir íslenskt atvinnulíf. Álverin eru hluti af stórum alþjóðlegum fyrirtækjum. Ef íslensk fyrirtæki selja þeim vöru eða þjónustu verða þau um leið gjaldgeng í þessum iðnaði um heim allan, enda eru álverin hér á landi á meðal þeirra allra fullkomnustu í heiminum. Tækifærin eru til staðar og löngu tímabært að huga að næsta skrefi fram á við.
Pétur Blöndal
Höfundur er framkvæmdastjóri Samáls, samtaka álframleiðenda.