- Samál Samtök álframleiðenda
- Borgartúni 35
- IS-105 Reykjavík
- Iceland
- Framkvæmdastjóri, Guðríður Eldey Arnardóttir er með síma 8200766
- samal@samal.is
Ál er einstaklega vel fallið til endurvinnslu. Endurvinna má málminn aftur og aftur án þess að hann tapi eiginleikum sínum og gæði hans haldast óbreytt. Um það bil 75% af öllu áli sem framleitt hefur verið síðan 1888 er enn í virkri notkun. Ál er af þessum sökum oft kallað græni málmurinn.
Auðvelt er að endurvinna ál vegna lágs bræðslumarks. Aðeins þarf 5% af orkunni sem notuð er við frumvinnslu áls til endurvinnslu þess. Endurvinnsla á áli hefur aukist jafnt og þétt og nemur nú um 30 milljónum tonna á ári eða sem samsvarar tæpum þriðjungi af heildarframleiðslu hvers árs.
Í Bandaríkjunum einum eru framleiddir um 100 milljarðar gosdósa á hverju ári en rúmlega 2/3 hlutar af þeim skila sér til endurvinnslu. Það sama á við um 85-90% af álinu sem notað er við framleiðslu bíla.
Endurvinnsluhlutfall í Evrópu er orðið nokkuð hátt og er um 60% fyrir drykkjarumbúðir, um 95% fyrir samgöngutæki og um 85% fyrir byggingarefni (EAA, 2006). Endurvinnsla áls veldur minna útstreymi gróðurhúsalofttegunda en frumvinnsla. Búist er við að endurnýting áls í heiminum tvöfaldist fram til ársins 2020.
Á Íslandi er um 94% af notuðum áldósum skilað til endurvinnslu.
Ál er mjög sterkt miðað við þyngd en einungis þarf helming þyngdar áls á móti stáli til að fá sama styrk. Notkun áls til bifreiðaframleiðslu í stað þyngri málma á borð við stál léttir farartækin sem aftur dregur úr eldsneytisnotkun þeirra og þar með útblæstri. Rannsóknir sýna að ál sem notað er til bifreiðaframleiðslu dregur á líftíma bifreiðarinnar meira úr útblæstri en varð til við framleiðslu álsins. Samkvæmt samantekt Evrópusamtaka álframleiðenda - EAA, dregur notkun áls í samgöngutækjum í Evrópu það mikið úr losun gróðurhúsalofttegunda á líftíma þeirra að það vegur upp alla þá losun sem til fellur við álframleiðslu fyrir Evrópumarkað. Um 35% alls áls sem notað er í Evrópu er notað í smíði bifreiða og annarra samgöngutækja.
Ál er þriðja algengasta frumefni jarðskorpunnar, næst á eftir súrefni og kísli og nemur það um 8% af þyngd hennar. Ál finnst í jarðvegi, flestum bergtegundum og öllum leirtegundum. Ál er í matvælum, mannslíkamanum, gróðri, vatni og meira að segja rykögnum í andrúmsloftinu. Af öllum málmum á jörðinni er mest til af áli. Til dæmis er ál 800 sinnum algengara en kopar, sem menn hafa þekkt og notað í mörg þúsund ár.
Hreint ál finnst hvergi í náttúrunni, það er ávallt í sambandi við önnur efni. Málmurinn er unninn úr bergtegundinni báxíti og eru stærstu báxítnámurnar í Ástralíu en þær er einnig að finna hvarvetna nálægt miðbaug jarðar. Úr báxíti er súrál unnið en það er efnasamband súrefnis og áls og líkist fínum, hvítum sandi. Súrál er meginhráefnið í álframleiðslu, en með rafstraumi er það klofið í frumefni sín.