- Samál Samtök álframleiðenda
- Borgartúni 35
- IS-105 Reykjavík
- Iceland
- Framkvæmdastjóri, Guðríður Eldey Arnardóttir er með síma 8200766
- samal@samal.is
Íslensku álfyrirtækin þrjú kaupa langmest af þeirri raforku sem framleidd er á Íslandi eða hátt í 80%. Ísland sker sig mjög úr í samanburði við önnur lönd en nær öll framleiðsla á raforku hér á landi byggir á endurnýjanlegum orkugjöfum á borð við jarðvarma og vatnsafl. Endurnýjanleg orka kallast sú orka sem unnin er með því að virkja náttúrlega hringrás án þess að virkjunin raski henni. Þetta á við um virkjun bæði vatnsafls og jarðhita.
Íslendingar nýta auðlindir sínar til öflunar hreinnar orku. Vatnsorka er nýtt til rafmagnsframleiðslu með því að virkja hreyfiorkuna sem til verður við fall vatns á leið þess til sjávar. Krafturinn í vatnsrennslinu ræðst af vatnsmagni og fallhæð og er notaður til að vinna rafmagn með því að leiða vatnið gegnum hverfilhjól í vatnsorkuveri sem síðan snýr rafala og raforka myndast. Í þessu ferli er hvorki gengið á vatnsauðlindina né verður vatnið fyrir mengun. Vatnsaflsvirkjanir á Íslandi eru samtals með 1.880 MW í uppsettu rafmagni. Árið 2008 nam raforkuframleiðsla þeirra samtals 12.427 GWst.
Á síðari áratugum hefur þekkingu á nýtingu jarðhitans fleygt fram en þá er nýtt sú orka sem er að finna í jarðlögum þar sem varmastreymi frá kjarna jarðar til yfirborðs er óvenju mikið. Með því að bora holur ofan í jarðhitageyma opnast leið fyrir heitan jarðhitavökva (vatn, gufu og gas) til að streyma til yfirborðs. Á Íslandi eru nú starfræktar sjö jarðvarmavirkjanir með 575 MW í uppsettu rafafli. Árið 2008 nam raforkuframleiðsla þeirra samtals 4.038 GWst.
Meginhluti þeirrar orku sem álfyrirtæki víða um heim nota til framleiðslunnar er ekki endurnýjanleg og við virkjun hennar verður mikil losun gróðurhúsalofttegunda. Ríki heims keppast við að draga úr notkun slíkra orkugjafa og má nefna sem dæmi að Evrópusambandið hefur sett sér það markmið að ná hlutfalli endurnýjanlegrar orku í 20% fyrir árið 2020.
Hér á landi er þessu öfugt farið því eins og áður sagði nýta íslensku álfyrirtækin fyrst og fremst endurnýjanlega orkugjafa. Af heildarorkunotkun Íslendinga, að meðtöldu jarðefnaeldsneyti, er um 80% fengin með nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa. Með því að framleiða ál úr slíkri orku eru Íslendingar að leggja mikið af mörkum til að vinna gegn mengun í heiminum.