Vinnustaðirnir

Alls starfa liðlega 2.000 manns fyrir áliðnaðinn á Íslandi. Störfin eru af ýmsum toga. Má þar nefna sem dæmi að hjá íslenskum álverum starfa bifvélavirkjar, vélvirkjar, rafvirkjar, rafeindavirkjar, málarar, múrarar, verkfræðingar, tæknifræðingar, efnafræðingar, eðlisfræðingar, líffræðingar, tölvunarfræðingar, vélstjórar, rafsuðumenn, viðskiptafræðingar, hagfræðingar, kokkar og svo mætti áfram telja.

Í kringum 40% þeirra sem starfa í íslenskum álverum hafa háskóla-, tækni- og eða iðnmenntun. Auk þess hljóta starfsmenn víðtæka þjálfun hjá fyrirtækjunum eftir að þeir hefja störf. Sem dæmi má nefna að um 200 starfsmenn hafa lokið námi í Stóriðjuskóla Alcan af alls um 450 starfsmönnum félagsins hér á landi.

Íslensk álver státa af háu hlutfalli kvenna sem þar starfa. Þannig er um fjórðungur starfsmanna Fjarðaáls konur, sem er hærra hlutfall en hjá nokkru öðru álveri Alcoa. Svipaða sögu er að segja af hlutfalli kvenna hjá Alcan og Norðuráli.

Starfsmannavelta hefur reynst lítil hjá íslenskum álverum sem er ótvírætt merki þess að starfsmönnum líki vel að starfa þar. Hjá Alcan, sem hér hefur lengst starfað, hafa vel á annað hundrað starfsmenn félagsins náð meira en 30 ára starfsaldri.

Laun í íslenskum álverum eru nokkuð hærri en í sambærilegum störfum. Þannig voru heildarlaun verkafólks í álverum að meðaltali um 440 þúsund krónur á mánuði á síðasta ári. Til samanburðar námu heildarlaun verkafólks hér á landi á sama tíma um 320 þúsund krónum á mánuði. Þá var meðalvinnutími starfsmanna í álverum heldur styttri, eða 43 klukkustundir á viku samanborið við liðlega 44 klukkustundir hjá verkafólki almennt.

Sjá einnig