Hönnunarráðstefnan Al+ um tækifæri í hönnun og áliðnaði var vel sótt, en þar var því velt upp hvaða möguleikar fælust í frekari framleiðslu á áli hér á landi fyrir íslensk fyrirtæki og hvernig nýta mætti íslenska álframleiðslu sem drifkraft til nýsköpunar.
„Við vorum afar ánægð með það hvernig tókst til,” sagði Halla Helgadóttir, framkvæmdastjóri Hönnunarmiðstöðvar Íslands, sem stóð að ráðstefnunni ásamt samtökum álframleiðenda í Svíþjóð og Íslandi, norsku hönnunarmiðstöðinni og hönnunarráðinu, Möbelriket í Svíþjóð, Arion banka og Samtökum iðnaðarins. „Ég vona að þetta verkefni verði upphafið að nýju samstarfi og spennandi tækifærum.”
Upphafið má rekja til þess að fimm íslenskir hönnuðir Sigga Heimis, Þóra Birna, Snæbjörn Stefánsson, Garðar Eyjólfsson og Katrín Ólína fóru til Möbelriket og Design Region Småland í Svíþjóð þar sem þau öðluðust frekari verkkunnáttu á áli. Þá þekkingu nýttu hönnuðurnir síðar í samstarfi við íslenska og sænska framleiðendur.
Frumgerðir af
vörum hönnuðanna voru til sýnis á ráðstefnunni, sem haldin var í Arion banka, en áður höfðu þær verið sýndar á hönnunarvikum í Svíþjóð og á Íslandi.
Hér má skoða myndir og lesa ágrip af því sem fyrirlesarar ráðstefnunnar höfðu að segja