- Samál Samtök álframleiðenda
- Borgartúni 35
- IS-105 Reykjavík
- Iceland
- Framkvæmdastjóri, Guðríður Eldey Arnardóttir er með síma 8200766
- samal@samal.is
Heimsmarkaðsverð á áli hefur hækkað um þrjátíu prósent frá því í fyrra. Pétur Blöndal framkvæmdastjóri Samáls segir þetta mikla innspýtingu fyrir efnahagslífið og afar góð tíðindi fyrir áliðnaðinn hérlendis og íslensku orkufyrirtækin. Hér má sjá umfjöllun um málið í fréttum Stöðvar 2.
Í fréttinni kemur fram að létt var yfir forstjórum álfyrirtækjanna þriggja á Íslandi eftir stjórnarfund Samáls í vikunni en þau Ragnar Guðmundsson á Grundartanga, Rannveig Rist í Straumsvík og Magnús Ásmundsson á Reyðarfirði horfi nú öll fram á bætt rekstrarumhverfi:
„Heimsmarkaðsverð á áli var á síðasta ári að meðaltali í kringum 1.600 dollarar tonnið en er nú komið yfir 2.100 dollara, sem er yfir þrjátíu prósenta hækkun.
Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls, segir hækkunina meðal annars skýrast af aukinni notkun áls í bílaframleiðslu en ál sé notað til að létta bílana. Rafbílar eins og Tesla séu til dæmis nær eingöngu framleiddir úr áli en því léttari sem rafbílar séu komist þeir lengra á hleðslunni.
Þá hafi Kínverjar verið að loka koladrifnum álverum vegna mengunar en Pétur segir þau losa tífalt meira en þau íslensku. Háværar raddir séu í Kína um að draga úr mengun, þar hafi menn verið að stíga á bremsurnar og það hafi haft töluverð áhrif á markaðinn.
Svo umfangsmikill er ál- og orkuiðnaðurinn hérlendis að hann hefur verið talin þriðja stoðin í íslensku efnahagslífi; á móti ferðaþjónustu og sjávarútvegi. Þrjátíu prósenta verðhækkun áls hefur því umtalsverð áhrif.
„Þetta er auðvitað mikil innspýting í efnahagslífið og auðvitað styrkir stoðir áliðnaðar,” segir Pétur.
Hann segir útflutning áls nema yfir 200 milljörðum króna á ári, þar af falli um 90 milljarðar til á Íslandi, mest til orkufyrirtækjanna, sem eiga mikið undir því að álverð haldist hátt.
„Þau eru öll tengd álverði á einhvern hátt þótt dregið hafi úr því á síðustu árum. Þannig að þetta eru mjög góð tíðindi þar líka.”“