- Samál Samtök álframleiðenda
- Borgartúni 35
- IS-105 Reykjavík
- Iceland
- Framkvæmdastjóri, Guðríður Eldey Arnardóttir er með síma 8200766
- samal@samal.is
„Hring eftir hring eftir hring,“ var yfirskrift ársfundar Samáls sem haldinn var í Norðurljósum Hörpu á fimmtudaginn 25. maí. Áhersla var lögð á nýsköpun, sjálfbærni og loftslagsmál. Hér má sjá samantekt frá fundinum.
Innlendur kostnaður 174 milljarðar
Rannveig Rist hóf fundinn á því að tala um stöðu og horfur í áliðnaði. Þar kom fram að útflutningstekjur íslenskra álvera námu um 400 milljörðum eða um fjórðungi útflutningstekna þjóðarbúsins og hafa aldrei verið hærri. „Stundum er talað eins og afkoma álveranna komi Íslendingum ekki við af því að þetta séu alþjóðleg fyrirtæki, en því fer fjarri lagi,“ sagði hún. „Ef horft er til innlends kostnaðar álveranna þá nam hann 174 milljörðum eða 44% af heildartekjum álvera. Á hverju ári kaupa álver vörur og þjónustu af hundruðum innlendra fyrirtækja og eiga sum hver fjöregg sitt undir þeim viðskiptum.“
Rannveig sagði áætlað að raforkukaup álvera næmu 85 milljörðum með flutningskostnaði. „Það er ótrúlegt að heyra þær gagnrýnisraddir ár eftir ár að ekki sé arður af orkusölu til álvera – á sama tíma og Landsvirkjun skilar methagnaði, greiðir út 20 milljarða í arð og greiðir hratt niður skuldir.“
Í erindi sínu kom hún inn á vinnu að stefnumörkun álvera í loftslagsmálum og kvaðst vera bjartsýn í þeim efnum. En álverin lögðu fram útfærðar tillögur í maí eftir stefnumótun og vinnustofur í vetur. Það var liður í loftslagsvegvísinum, atvinnugreinaskiptri stefnumörkun í loftslagsmálum, og bar hún lof á stjórnvöld fyrir það samtal við atvinnulífið.
Ræðu Rannveigar má sjá hér.
Leiðin að árangri í loftslagsmálum
„Gaman að sjá hversu margir eru mættir, enda eruð þið lykilfólk þegar kemur að þessu verkefni hér..., því við erum með mjög háleit markmið Íslendingar í loftslagsmálum,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, loftslags og orkumálaráðherra þegar hann steig á svið, en yfirskrift erindisins var „Leiðin að árangri í loftslagsmálum.“
„Það er engin spurning að það er skynsemi í því að fá atvinnulífið, vísindasamfélagið og stjórnvöld saman að því að leita lausna til þess að ná þessum árangri,“ sagði hann ennfremur. „Í álinu þá er gaman að heyra hvernig menn eru að nýta lágt kolefnisspor í markaðssetningu á sinni vöru. Það mun bara vaxa. Sama með sjávarútveginn. Lágt kolefnisspor og sjálfbærni munu svo sannarlega skila sér í auknum verðmætum. Og það sem skiptir mestu máli er það, af því að margar auðlindir eru takmarkaðar, að sú auðlind sem er ekki takmörkuð er hugvitið og það verður endalaust eftirspurn eftir grænu hugviti um allan heim um ókomna framtíð.“
Hér má sjá ræðu Guðlaugs Þórs.
Hringrás og nýr steypuskáli
Fyrir pallborð um loftslagsmál var sýnt myndskeið með viðtali við Brynju Silness, framkvæmdastjóra Als álvinnslu, en fyrirtækið er að ljúka við fjárfestingu í að ljúka hringrásarferli álgjalls, en á hverju ári endurvinnur fyrirtækið 4 þúsund tonn af áli sem fara aftur inn í framleiðsluferli álvera. Þá var rætt við Eggert Valmundsson verkfræðing hjá Verkís um hönnun nýs steypuskála Norðuráls, en þar kom m.a. fram að hann hefði verið hannaður með nýjan efnagreiningarbúnað íslenska álsprotans DTE í huga.
Þarf réttu leiðirnar og hvatana
Út frá loftslagsmálum hefur þessi fjárfesting gríðarlega þýðingu, að sögn Steinunnar Daggar Steinsen, yfirmanns öryggis- og umhverfismála Century Aluminium. „Það sem við vorum að gera áður var að við vorum að senda frá okkur álhleifa, sem í rauninni voru bara klakar sem eru sendir út og endurbræddir. En það sem gerist núna er að álið okkar fer í vökvaformi beint í þessa bolta, sem er lengra skref í virðiskeðjunni, og þar af leiðandi þarf ekki eins mikla orku í lokaafurðina, sem fer til dæmis í Audi eða gluggapóstana heima hjá okkur. Með þessu erum við í raun að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með því að auka orkunýtni í virðiskeðjunni. Þetta er alveg 40% bæting í ferlinu og það gerði okkur kleift að fá græna fjármögnun fyrir þetta verkefni.“
Sigurður Hannesson framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins fagnaði því frumkvæði stjórnvalda að leita samstarfs við atvinnulífsins. „Það eru auðvitað stórtíðindi að iðnaðurinn, þar á meðal áliðnaðurinn, skuli setja sér markmið um kolefnishlutleysi og vera með aðgerðaáætlun til að ná þeim markmiðum.“ Þar kom hann inn á yfirlýsingu áliðnaðarins frá 2019, sem einnig var undirrituð af stjórnvöldum, um að leitað yrði leiða til að ná kolefnishlutleysi árið 2040. „Vinnan við loftslagsvegvísi atvinnulífsins er gríðarlega góð og skilar fullt af tillögum um hvernig komast megi í mark. Og ég hlakka til að sjá hvernig stjórnvöld munu grípa þann bolta og fara í samstarf við atvinnulífið, ekki bara um skatta og kvaðir, heldur líka finna réttu leiðirnar og hvatana til að láta þetta gerast.“
Hann sagist vilja taka undir orð Rannveigar, um að gríðarlegur árangur hefði náðst nú þegar, því „frá árinu 1990 hefur losun í íslenskum áliðnaði dregist saman um 75% á hvert framleitt tonn, og umhverfisáhrif áliðnaðar eru hvergi minni.“
Hér má sjá pallborðið um loftslagsmál.
Lampar, hvaltennur og hulin hjörtu
Tinna Gunnarsdóttir vöruhönnuður tæpti á sögu þeirra hluta sem voru til sýnis á ársfundinum, en þeir áttu sammerkt að vera hannaðir af henni og vera úr áli. Þar á meðal voru lampar, vasar, hvaltennur, stólar eða borð og hulin hjörtu. „Þarna fáum við aðeins innsýn í þennan dásamlega draumkennda heim sem Málmsteypan Hella er, þar sem handverk, þekking og færni haldast í hendur. Og það er alltaf alveg sérstakt að fá að koma inn í þennan heim sem er svo gamall og nýr á sama tíma.“
Hér má sjá erindi Tinnu.
Fjölbreytt tækniþróun fyrir áliðnaðinn
Snjallvæðing og umhverfislausnir eru ráðandi í áliðnaði þessa dagana, að sögn Guðbjargar Óskarsdóttur framkvæmdastjóra Tækniseturs, en rætt var við hana í myndskeiði sem spilað var í upphafi pallborðs um nýsköpun. „Tæknisetur er í raun sambland af rannsóknarstofnun og frumkvöðlasetri, þannig að segja má að við séum þekkingarsamfélag,“ bætti hún við.
„Hér á Tæknisetri hefur orðið til ákveðin þétting fyrirtækja sem eru að vinna að lausnum á sivði áliðnaðar. Má þar m.a. nefna Gerosion, Álvit, Arctus Aluminium og DTE. Þetta eru fyrirtæki sem eru að vinna hvert á sínu sviði og gaman að sjá hvað þau stunda fjölbreytta tækniþróun fyrir áiðnaðinn.“ Dagur Ingi Ólafsson, klasastjóri Álklasans, veitti innsýn í starfsemi Tækniseturs og Álklasans og sagði markmið klasans að skapa vettvang til að koma að lausnum sem geta verið hagkvæm fyrir samfélagið allt.
Mikil gróska í nýsköpun á Íslandi
Í pallborðinu byrjaði Áslaug Arna Sigbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, á því að ræða nýsköpunarvikuna. „Það er gaman að sjá ótrúlega mikil gróska í nýsköpun á Íslandi og gaman að sjá hvað umhverfið sem við höfum verið að skapa síðustu ár hefur skilað sér vel,“ sagði hún. „Það sem skiptir mestu máli eru endurgreiðslur rannsókna og þróunar... Það sem skiptir alla máli er almennur hvati, almennar endurgreiðslur... Síðan erum við með ýmsa sjóði sem ég hef bent á að þeir eru orðnir of margir, of flóknir, of dreifðir hjá hinu opinbera eru 80 sjóðir. Og ég ætla að leyfa mér að segja að það er algjört rugl. Þeir eru alltof litlir og umsýslukostnaður er um 800 milljónir. Það eru um 104 ársverk sem ég vildi heldur að skilaði sér beint til fyrirtækja. Við getum haft umhverfið einfaldara og aðgengilegar og ekki eins tímafrekt.“
„Við höfum verið að sérhæfa okkur í að nýta úrgangsstrauma betur og koma þeim annaðhvort yfir í sömu eða aðra framleiðslu,“ sagði frumkvöðullinn Sunna Wallevik nýkomin af nýsköpunarviku, en hún er stofnandi og framkvæmdastjóri Gerosion og Álvits. Við höfum líka verið að vinna leið til að nýta endurnýta kolefnisríkan úrgang sem afoxara yfir í frekari melmisframleiðslu í stað jarðefnaeldsneytis. Við höfum verið að vinna að áframvinnsluaðferðum fyrir kerbrot álvera á Íslandi. Þar erum við að vinna með áströlskum aðilum og eins okkar eigin aðferðum. Svo hjá Álvit erum við að þróa háhitabindiefni sem er líka mjög tæringarþolið í stað koltjörubiks sem er úr jarðefnaeldsneyti og losar frá sér heilsuspillandi efni í kragasalla fyrir rafgreiningarker álvera. Og spinoff af því að er að nota það í öll rafskaut í heiminum. Þá erum við að tala um alla álframleiðslu og mestalla melmisframleiðslu. Með því gætum við minnkað losun um 20-50%, sem gætu verið yfir 300 þúsund tonn af CO2 sem hægt væri að spara.“
Hér má fræðast um Tæknisetur og Álklasann og hlýða á umræðurnar í pallborðinu um nýsköpun.
Íslendingar geta verið í fremstu röð
„Nýsköpun og orkuskipti snúast að miklu leyti um hringrás og sjálfbærni – og þannig er það svo sannarlega í álinu,“ sagði Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls.
„Verkefnið í áliðnaði er að þróa nýja framleiðslutækni og skala hana upp – ein lausn mun ekki duga til – við þurfum heilt vopnabúr. Og samkeppnin er alþjóðleg um þessi rannsóknarverkefni – enda líklegt að þau lönd sem verði leiðandi á því sviði verði efst á blaði þegar kemur að því að fjárfesta í nýrri tækni og nýjum framleiðsluaðferðum.
Ef litið er til sögunnar hér á landi, þá hafa veigamestu erlendu fjárfestingarnar síðustu hálfu öldina verið í áliðnaði. Nú er að renna upp nýtt skeið fjárfestinga til að mæta loftslagsáskoruninni – og Íslendingar geta vel verið í fremstu röð, enda erum við næststærstu álframleiðendur í Evrópu og hér starfa þrjú öflug alþjóðleg álfyrirtæki.“
Hér má sjá erindi Péturs.